Sala á þorramat virðist ætla að haldast óbreytt þrátt fyrir að búið sé að aflýsa nær öllum stórum þorrablótum. Skagamenn láta faraldurinn ekki stoppa sig og slá upp stóru þorrablóti sem sent verður heim í stofu.

Þrátt fyrir að búið sé að aflýsa nær öllum stórum þorrablótum þetta árið virðast landsmenn ekki ætla sleppa þorramatnum í ár. Hann rýkur út úr stórmörkuðum sem aldrei fyrr. 

„Það eru allir á landinu og eins held ég að það sé bara meira um svona smærri þorrablót, fólk að hittast og fá sér þorramat,“ 

Hvað er svo vinsælast? 

Ég myndi segja að það væri þessir súru hrútspungar og lambasviðasultan, hún stendur alltaf fyrir sínu“ segir Jón Ævar Sveinbjörnsson, verslunarstjóri í Bónus.

Í Eyjafjarðarsveit er þorrinn jafnan haldinn hátíðlegur með stóru þorrablóti í íþrótthúsinu. Af augljósum ástæðum verður ekkert slíkt í ár. Á Akranesi hins vegar, þar hugsa menn í lausnum og ætla halda rafrænt þorrablót. 

„Frá fyrsta degi var þetta alltaf ákveðið bara, að ef við gætum ekki haldið blótið eins og venjulega þá myndum við alltaf streyma þessu,“ segir Ísólfur Haraldsson, dagskrárgerðarmaður Þorrablóts Skagamanna.

„Ég held það sé stemning sko, ég held það sé bara mjög góð stemning maður heyrir það alla vega á þeim sem maður hefur talað við, fólk er orðið spennt fyrir þessu. Það trúði því varla að þetta væri að fara að gerast en þetta er að fara að gerast,“ segir Karen Lind Ólafsdóttir, úr þorrablótsnefndinni á Skaganum.

„Vonandi er framundan bara frábær uppskeruhátíð fyrir okkur Skagamenn,“ segir Ísólfur.

Miðasala er hafin, hvernig gengur?

Bara ótrúlega vel og við horfum fram á það verði bara metsala í ár,“ segir hann að lokum.