„Andy Schmid er líklega besti leikmaður í heiminum í dag að stýra leik liðs sem spilar sjö á móti sex í sókninni,“ segir Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, sem vakti nánast alla nóttina til að leikgreina fyrsta andstæðing Íslands í milliriðli. Ísland og Sviss eigast við klukkan 14:30 á morgun.
„Það eru einfaldlega fáir betri en Schmid að deila boltanum til hægri eða vinstri, skjóta á markið eða senda á línu. Og þetta er illviðráðanlegt og yfir þessu lá ég til að verða sex í nótt,“ segir Guðmundur sem þekkir þó afar vel til leikmannsins.
Sá besti í Þýskalandi fjögur ár í röð
Hann fékk Andy Schmid nefnilega til liðs við þýska stórliðið Rhein-Neckar Löwen árið 2010 og þar var Guðmundur þjálfari hans í fjögur ár.
Schmid, sem er 37 ára, er ennþá leikmaður Löwen en hann var valinn besti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar fjögur ár í röð, frá 2014 til 2017.
Leikur Íslands og Sviss í milliriðli hefst klukkan 14:30 á morgun og verður hann sýndur beint á RÚV og lýst á Rás 2. Upphitun hefst í HM-stofunni klukkan 14:00 á morgun.
Hægt er að sjá allt viðtalið við Guðmund í spilaranum hér að ofan.