Fjallagarpurinn John Snorri Sigurjónsson dvelur enn í grunnbúðum fjallsins K2 og segir ekki koma til greina að hætta við að ná toppi fjallsins þrátt fyrir hörmungaratburði á fjallinu síðustu daga. Tveir fjallgöngumenn hafa hrapað til bana í hlíðum fjallsins að undanförnu.
John Snorri sagðist hafa það gott í grunnbúðunum þegar hann ræddi við Andra Frey í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Hann segir stefnuna hafa verið setta á að halda göngunni áfram 15. janúar en veðurspáin hafi verið slæm og John Snorri og hans hópur drógu lappirnar með að fara af stað. „Þeir héldu af stað upp sjerparnir en við ákváðum að fara niður. Ég vildi ekki vera að hætta fingrum, nefinu, tánum og öðru slíku,” segir John Snorri.
Þegar hópurinn var á leið aftur niður dundi fyrsta áfallið yfir. „Hann Sergi, hann er hérna svolítið fyrir aftan okkur og hann er að fara svolítið hratt niður og ekki með öryggi á línunni. Heldur bara í línuna og húrrar niður, eitthvað gerist. Hann rennur til eða missir takið af línunni og hann hrapar 600 metra niður. Því miður þá lést hann skömmu seinna. Hann var mjög illa farinn. Það var agalegt sjokk hérna í grunnbúðunum á K2,” segir John Snorri.
Hættan á fjallinu er mikil en John Snorri segir að hópurinn hans fari mjög varlega. „Þetta er alltaf mikil áhætta og þetta fjall er ekki með góða tölfræði. Maður reynir að fara varlega. Við erum þrír saman. Það er einn sem klifrar á undan á meðan er annar sem fylgist með fjallinu. Það sem við erum að lenda mikið í núna er þetta grjóthrun í fjallinu,” segir John Snorri..
Í gær reið annað áfall yfir þegar að lík bandaríska fjallgöngumannsins Alex Goldfrab fannst í hlíðum fjallsins en John Snorri hafði tekið þátt í leit að honum þegar hann skilaði sér ekki niður í búðirnar á réttum tíma. „Ég er búinn að taka þátt með pakistanska hernum. Fyrst kortlögðum við leiðina sem Alex Goldfrab fór og svo flugum við dróna og reyndum að finna hvar hann gæti mögulega verið. En það gekk ekki. Svo kom herinn í gær og við flugum hérna ansi víða. Þeir þurftu reyndar að fara niður eftir að sækja meira eldsneyti. Svo komu þeir aftur og þá sáum við eitthvað gult í tæplega 6000 metra hæð í Pastore Peak þar sem hann var í hæðaraðlögun. Ætlaði að vera fyrstur til að klifra Pastore Peak að vetri til. Svo fórum við aftur og tókum myndir og bárum myndirnar saman við síðustu myndir sem voru teknar af honum og það virðist vera að þetta sé hann. En hann er á mjög hættulegum stað og ekki auðvelt að nálgast hann,” segir John Snorri.
Von er á vondu veðri á K2 næstu daga og hópur John Snorra undirbýr sig undir storminn. Hann vonast til þess að veðurgluggi opnist fljótlega til að hægt verði að reyna við tindinn og horfir hann þá til 22.-23. janúar.
Þrátt fyrir slysin í fjallinu síðustu daga kemur ekki til greina að hætta við að ná toppnum. John Snorri segir að undirbúningurinn hafi verið langur. „Á meðan ég hef stuðning fjölskyldunnar þá held ég áfram. Ég treysti sjálfum mér til að vera í fjallinu og ég treysti sjálfum mér til að passa mig. Ég er nú þannig að þegar ég er í fjallinu þá finnst mér ég vera hluti af fjallinu. Mér líður ekki illa og finnst ég ekki vera í mikilli hættu þó að aðstæður séu mjög krefjandi,” segir John Snorri.