Aron Pálmarsson hefur haldið sig utan sviðsljóssins eftir að í ljós kom að hann gæti ekki tekið þátt á heimsmeistaramótinu í handbolta í Egyptalandi vegna meiðsla. Í gær birtist hins vegar viðtal við Tomas Svensson markmannsþjálfara Íslands á vefsíðu sænska dagblaðsins Aftonbladet. Þar sagði Svensson að læknir íslenska liðsins hefðu ekki einu sinni fengið að skoða Aron áður en ákveðið var að Aron yrði ekki með á HM.
Þessi orð stönguðust á við fréttatilkynningu HSÍ frá 2. janúar. Þar sagði meðal annars: „Eftir læknisskoðun hjá læknum landsliðsins er það ljóst að Aron verður ekki leikfær nú í janúar.“ HSÍ sendi svo frá sér aðra tilkynningu í gær þar sem ítrekað var að Aron hefði sannarlega verið skoðaður af íslenskum. Ummæli Svensson væru byggð á misskilningi og hefði hann beðist afsökunar.
„Þetta var náttúrulega mjög skrítið verð ég að segja að vakna við þetta í gær. Hann [Tomas Svensson] hringdi náttúrulega í mig um leið og baðst afsökunar. En ég auðvitað gekk á hann og spurði hann hvað honum gengi til. Í rauninni er það sem kemur út úr þessu að það var bara samskiptaleysi hjá þeim, þjálfurunum og innan HSÍ. Það er í rauninni ekkert gruggugt í gangi,“ sagði Aron Pálmarsson þegar hann ræddi við RÚV í dag.
„Það er enginn misskilningur í gangi“
Brynjólfur Jónsson læknir sem hefur starfað með HSÍ í mörg ár skoðaði Aron og kvað upp dóminn. „Binni læknir er búinn að vera inn í þessu síðan þetta gerðist. Hann er búinn að vera í samskiptum við læknana úti [hjá Barcelona], við mig. Svo flýg ég heim daginn eftir úrslitaleik Meistaradeildarinnar og hitti Binna síðan daginn eftir það. Þetta mál er í rauninni bara í meira lagi óheppilegt og skrítið. Það er enginn misskilningur í gangi. Þetta er í rauninni bara samskiptaleysi,“ sagði Aron.
Aron var einn leikmanna sem var talsmaður þess að endurskoðað yrði að halda HM 2021 í miðjum heimsfaraldri kórónuveirunnar. Í kjölfari frétta í gær hafa því spunnist sögur um það að Aron hafi hreinlega bara ekki nennt á HM í Egyptalandi. Hann segir það þó af og frá.
„Svo fylltist mælirinn“
„Það er mjög erfitt að sitja undir slíku. Maður er fyrirliði og prímus mótór í þessu liði, þannig það er alltaf smjattað á öllu og maður er orðinn vanur því. En það er náttúrulega nógu erfitt að sitja heima og þurfa að horfa á þetta í staðinn fyrir að vera að spila. Og erfitt að vera í þessum meiðslum. Sérstaklega svona meiðslum, sem eru alvarleg. Þannig auðvitað er það leiðinlegt. Ég reyni nú lítið að pæla í því en svo fyllist mælirinn og maður þarf að láta í sér heyra, og bara í rauninni taka burt allan misskilning og segja þetta bara eins og það er,“ sagði Aron.
Hann vill að sviðsljósið beinist að leikmönnum Íslands á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi. „Fókusinn á ekki að vera á mér. Það kom strax út að ég gæti ekki spilað á þessu HM samkvæmt læknisráði íslensku læknanna og þar við sat. Ég er þá bara í rauninni þá bara áhorfandi, en auðvitað hluti af liðinu. Ég vil svona helst að við náum að setja fókusinn á liðið og styðja þá. Ég er þeirra aðal aðdándi í dag og helsta klappstýra og auðvitað vona að þeir standi sig sem best.“
„Mun alltaf gefa kost á mér svo lengi sem líkaminn leyfir“
Aron segist ekki vita hvenær hann snýr aftur inn á keppnisvöllinn. „Maður auðvitað reynir allt sem maður getur til að komast sem fyrst inn á gólf. Ég mun alltaf gefa kost á mér svo lengi sem líkaminn leyfir.“
Nánar verður rætt við Aron Pálmarsson í íþróttafréttum RÚV klukkan 19:25 í kvöld og í HM stofunni fyrir leik Íslands og Sviss á morgun. HM stofan hefst klukkan 14:00 en leikur Íslands og Sviss klukkan 14:30.