Unnur Ösp Stefánsdóttir leikstýrir eiginmanni sínum, Birni Thors, í einleiknum Vertu úlfur sem frumsýndur verður bráðlega í Þjóðleikhúsinu. „Við vorum öll eins og skurnlaust egg. Af því að ég vildi að þessi sýning væri á hnífsblaði, á hættulegum stað,“ segir Unnur.
Þjóðleikhúsið hefur sýningar á stóra sviðinu að nýju föstudaginn 22. janúar, eftir nær fjögurra mánaða samfellt hlé vegna samkomubanns, með frumsýningu á einleiknum Vertu úlfur. Verkið er eftir Unni Ösp Stefánsdóttur, sem einnig leikstýrir, og er byggt á bók Héðins Unnsteinssonar.
Fjallað er hispurslaust um baráttuna við geðsjúkdóma út frá sjónarhóli manns sem í senn glímir við geðraskanir og starfar innan stjórnsýslunnar á sviði geðheilbrigðismála. Þetta er einleikur með Birni Thors, eiginmanni Unnar, og hafa hjónin lært sitthvað nýtt í ferlinu. „Við höfum aldrei unnið í þessari kemistríu þar sem annað er að leikstýra hinu,“ segir Unnur. Mörk og markaleysi eru til umfjöllunar í verkinu og hefur samlífi þeirra tekið að spegla það í ferlinu. „Það er algert markaleysi í gangi núna því Bjössi fær nótur á koddanum á hverju kvöldi og þegar hann vaknar. Við erum að nálgast frumsýningu og þá verður takturinn örari og ég verð alveg heltekin af því viðfangsefni sem ég er að fást við hverju sinni.“
„Þetta er lífið okkar, það er bara svona,“ segir Björn. „Þú ert í kafi þegar þú ert að vinna að stóru verkefni. Núna blæðir vinnan alveg heim. Við erum að vinna allan sólarhringinn og stöðugt að.“
„Þetta er sameiginleg ástríða hjá okkur og erindi verksins er brýnt, ekki síst núna. Það gerir það held ég að verkum að við erum bæði heltekin af þessu,“ segir Unnur.
Öll forvinna í vaskinn og sýningunni kollvarpað
Björn segir að það hafi reynst átakalaust að vera leikstýrt af eiginkonu sinni en það að koma leikgerðinni á svið í heimsfaraldri hafi hins vegar verið darraðardans. Sex vikum fyrir ætlaðan frumsýningardag var ákveðið að færa einleikinn af litlu sviði yfir á stóra sviðið í Þjóðleikhúsinu.
„Verkefnið umpólast. Öll forvinna í vaskinn og byrjað upp á nýtt,“ segir hann. „COVID hefur kennt okkur ákveðið æðruleysi, ekki síst okkur í leikhúsinu þar sem allt er á röngunni og ekkert gengur upp eins og ætlað var. Þannig að við höfum þurft að temja okkur æðruleysi í okkar vinnu og þetta verkefni var hámörkun á því.“ Að kollvarpa sýningunni hafi hins vegar reynst blessun. „Það var ótrúlega gefandi. Það hleypti öllum aðstandendum verkefnisins nær kjarna sýningarinnar.“
Unnur þurfti að endurskrifa leikgerðina og í ferlinu ákvað hún að dreifa ábyrgðinni með hópnum sem að verkinu kom. „Það er svo miklu meira kreatíft og gefandi með svona stórkostlega listamenn sem ég er með í hópnum: Elínu Hansdóttur, Björn Bergstein, Emilíönu Torrini, Valgeir Sigurðsson, Halldór Örn og Filippíu Elísdóttur og Prins póló. Að hleypa öllum að borðinu. Að fara inn í kjarnann og sársaukann. Bjössi segir að þetta hafi verið átakalaust en þetta var ótrúlega erfitt tilfinningalega. Við vorum öll eins og skurnlaust egg. Af því að ég vildi að þessi sýning væri á hnífsblaði, á hættulegum stað. Þetta er ekki kósí kvöldstund. Hún gekk nærri okkur á æfingatímanum og við skiptumst á að grenja inni í salnum.“
„Ég vil fara í gegnum mína sorg“
Unnur og Björn segja að það skipti höfuðmáli í þeirra vinnu að efniviðurinn eigi ríkt erindi. „Draumur okkar í leikhúsinu er að vinna við efni sem hefur tengiflöt við samfélagið. Sem á ríkt erindi. Þegar það er til staðar þá hafa hlutirnir tilhneigingu til að falla rétt og ákvarðanir teknar á réttum forsendum,“ segir Björn.
Dramatískar ákvarðanir, eins og að færa einleik af litlu sviði yfir á stærsta svið leikhússins með skömmum fyrirvara, reynast auðveldari og gæfuríkari ef erindi verksins er brýnt. „Það voru allir til í þetta. Það small eitthvað. Þetta var hárrétt ákvörðun.“
Hjónin eru sammála um að leikhús verki best þegar það hafi afgerandi hreinsunarmátt. „Ég vil fara í gegnum mína sorg, mína hamingju mína lífsreynslu með samsvörun við það sem er að gerast á sviðinu,“ segir Unnur. Kalt pólitískt leikhús hafi því ekki sama aðdráttaraflið, þó það geti verið skemmtilegt að leika í því.
„Ég hef áhuga á að hleypa fólki í gegnum hreinsun,“ bætir hún við og þar komi að því sem gerir leikhúsið svo einstakt. „Það getum við bara í leikhúsi í þessu návígi við hvert annað. Í þessu kófi eru allir búnir að horfa á allt á Netflix, þetta eru frábærar seríur en það er einhver galdur í loftinu þegar við getum komið saman og upplifað það saman. Við höfum þurft að endurskilgreina okkur í leikhúsinu, endalaust að sýna eitthvað streymi, en það er eitthvað í þessu augnabliki að þetta er lifandi form. Þess vegna mun leikhúsið aldrei deyja held ég.“
Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Unni Ösp Stefánsdóttur og Björn Thors í Segðu mér á Rás 1.