Leiksýningin Fuglabjargið er sú fyrsta í nokkurn tíma sem sýnd er í Borgarleikhúsinu. Snæbjörn Brynjarsson, gagnrýnandi, segir að verkið einkennist af listrænum metnaði og það sé holl upplifun fyrir bæði börn og fullorðna.
Snæbjörn Brynjarsson skrifar:
Það var hátíðleg stund þann níunda janúar í Borgarleikhúsinu þegar ekki aðeins fyrsta sýning ársins var frumsýnd, heldur fyrsta sýning á landinu í langan tíma fór á svið. Það var söngleikurinn Fuglabjargið í leikstjórn Hallveigar Kristínar Eiríksdóttur. Birnir Jón Sigurðsson skrifaði handritið, en þau tvö hönnuðu leikmyndina saman. Tónlistin var eftir Ingibjörgu Ýr Skarphéðinsdóttur og Ragnheiði Erlu Björnsdóttur.
Lokun leikhúsa mest allt árið 2020 er einn af þessum atburðum sem engin eða fá söguleg fordæmi eru fyrir. Þegar spænska veikin gekk yfir árið 1918 frestaði leikfélag Reykjavíkur haust-frumsýningunni, en þá stóð til að sýna Lénharð fógeta, eftir Einar Kvaran. Á þessum tímapunkti fyrir rétt rúmum hundrað árum voru Íslendingar skiljanlega mikið að velta fyrir sér sambandi Íslands og Danmerkur, og það leikrit fjallar um þegar íslenskir bændur á Suðurlandi myrtu árið 1502 danskan embættismann, Lénharð fógeta, sem þeir álitu harðstjóra.
Þessi sýning hefði verið athyglisvert innlegg í umræðu um fullveldi Íslands og stóð til að frumsýna hana í byrjun október, en endaði á því að vera frumsýnd annan í jólum, en þá voru nokkrar vikur liðnar síðan Íslendingar höfðu fengið fullveldi og mögulega hefur það dregið aðeins úr slagkrafti verksins. En víkjum nú aftur að bjarginu.
Sýningin sem ætluð er börnum fjallar um fuglana á eyjunni Skrúð á Fáskrúðsfirði. Þar er blómlegt og litskrúðugt fuglalíf sem verður innblástur í mörg ljóð og söngatriði, en í verkinu koma fyrir súlur, ritur, lundar, haftyrðlar, langvíur eða hringvíur, hrafnar, skarfar, æðarfugl og hafernir, og því má segja að verkið sé býsna lærdómsríkt. Í það minnsta lærði ég mörg önnur samheiti sem hægt er að nota yfir þessa fugla og sitthvað um hegðun þeirra, en þó er megináherslan í verkinu blessunarlega ekki á að fræða heldur að skapa upplifun. Að einhverju leyti mætti bera verkið saman við hinn fræga söngleik Cats eftir Andrew Lloyd Webber, því sá söngleikur fylgir ekki beinlínis neinu skýru plotti heldur kynnumst við mismunandi köttum í gegnum sungin ljóð eftir breska skáldið T.S. Elliot. Í fuglabjarginu kynnumst við mörgum ólíkum fuglum sem eiga sviðið í sínum söng og dansatriðum, þarna eru klaufalegir lundar sem sinna prestsstörfum, ritur sem drita úr háloftunum, íhalds-skarfar með óhemju hátt sjálfsálit og síslúðrandi æðarfuglar svo eitthvað sé nefnt. Eyjan Skrúður sem var friðlýst 1995 hefur auðvitað mun fleiri fugla að geyma en hægt var að setja í klukkutíma-langa sýningu, og sem betur fer var ekki reynt að troða öllum inn heldur aðeins þeim sem setja mestan svip á eyjuna.
Þrír söngvarar og leikarar ganga í flest hlutverkin, þau Viktoría Sigurðardóttir, Björk Níelsdóttir og Ragnar Pétur Jóhannsson leika flesta fuglana og þurfa oft að standa í mjög snöggum búningaskiptum til að það gangi upp. Búningar Sólveigar Spilliaert eru mjög smekklegir, ekki yfirdrifnir eins og oft í sýningum ætluðum börnum, heldur fallegir búningar sem gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn. Erfitt er að gera upp á milli flytjendanna, því að þau eru öll þrjú greinilega mikið hæfileikafólk. Ragnar Pétur er með kröftuga rödd og góður grínleikari, Björk Níelsdóttir ljær öllum fuglum sínum einstakan karakter, og getur verið bæði klunnaleg og ógnvekjandi, og Viktoría Sigurðardóttir gerir ljóðið og lagið um súluungann sem bíður eftir pabba eftirminnilega vel. Öll þrjú sýna mikil tilþrif í söng og leik, þó svo ég geri ávallt þann fyrirvara þegar ég fjalla um tónlistarflutning í verkum að ég er sjálfur með bakgrunn í leikhúsfræðum en ekki tónlist.
Hvað varðar tónlistina sjálfa fannst mér hún nokkuð góð. Þarna eru lög sem ég gæti trúað að myndu njóta nokkurra vinsælda til lengri tíma og myndu njóta sín utan sviðsverksins sjálfs. Hljóðfærin eru meðal annars fagott, saxófónn, flauta og slagverk, og söngstíllinn meira í ætt við óperusöng heldur en dæmigerðan barna-söngleik. Hann passar vel við bundið málið í verkinu, en orðfæri Birnis er mjög gott, það er mjög klassískur bragur yfir öllu saman, og frískandi að hér í barnasýningu er ekki verið að tala niður til áhorfenda eða ofur-einfalda, en það vakti líka hjá mér spurningar um hversu aðgengilegt verkið er þeim börnum sem koma á sýninguna. Það gæti verið góð hugmynd jafnvel að undirbúa ungan áhorfanda aðeins með því að sýna honum eða henni myndir af fuglunum í sýningunni og jafnvel fræða hann aðeins um lifnaðarhætti þessara fugla því sýningin gefur ekki fulla mynd af þeim. Á tímabili í sýningunni varð minn fimm ára ferðafélagi eilítið eirðarlaus yfir verkinu, sem hún var ekki alveg viss hvað henni ætti að finnast um, þó svo á milli þeirra kafla væru fleiri atriði sem náðu að halda athygli hennar. Sýningin hentar þó alveg svo ungum áhorfanda, sér í lagi ef hann er undirbúinn fyrir sýninguna með því að segja honum aðeins frá fuglunum á undan, og er holl upplifun fyrir eldri börn, þó svo þau megi ekki búast við sambærilegu fjöri og fíflalátum eins og ef þau væru að fara á Leikhópinn Lottu eða stærri söngleiki ætlaða börnum.
Þessi listræni metnaður fyrir hönd barnanna hefur þó þann ótvíræða kost að þarna eru atriði sem fullorðna fólkið kann að meta, jafnvel betur en börnin. Enginn þarf að sitja undir kjánahroll eða vandræðalegum tilraunum til að kreista út hlátur með prumpu-bröndurum eða einhverju álíka.
Á heildina litið er því um að ræða verk sem er fallega ort, og með smekklegri tónlist, sem hefur alla burði til að verða jafnvel sígilt. Það er vegna þess að umfjöllunarefnið, og mátinn sem það er framreitt á, er frekar tímalaus, og þegar ljóð og lög eru svona haglega samin þá gæti ég trúað að áhorfendum hefði ekki leiðst að heyra þau fyrir fimmtíu árum, og að þau muni einnig ganga upp eftir fimmtíu ár. Tíminn mun eflaust leiða það í ljós, en ég gæti vel trúað Fuglabjarginu til að rata á svið aftur, kannski í einhverri breyttri mynd, kannski með fleiri fuglum og að sjálfsögðu öðrum umbúðum, en engu að síður með erindi fyrir nýjar kynslóðir til að hlýða á.