Hæpið er að raunvirði fáist fyrir hlut í Íslandsbanka við þær aðstæður sem nú eru og ólíklegt að heppilegir kaupendur finnist, að mati Guðrúnar Johnsen hagfræðings og lektors við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn.

Bæði efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og fjárlaganefnd fjölluðu í dag um greinargerð fjármálaráðuneytisins um sölu á fjórðungshlut ríkisins í Íslandsbanka, en fjármálaráðherra hefur óskað eftir að álit nefndanna liggi fyrir eigi síðar en 20. janúar. Einnig er Seðlabankinn að vinna umsögn um fyrirhugaða sölu og var óskað eftir að bankinn skilaði henni á föstudag. Fjármálaráðherra telur rétt að hefja söluferlið.

Ættum að fá meðalverð markaðarins

„Það er mælt með því af hálfu Bankasýslunnar að við látum reyna á skráningu á bankanum núna. Og við erum þá að horfa til þess að skrá hluta bankans og losa síðan í gegnum markaðinn frekara eignarhald ríkisins á komandi misserum og árum. Þannig ættum við að fá meðalverð markaðarins yfir tímabilið sem selt er og ef við horfum til þess sem hefur verið að gerast á hlutabréfamörkuðum undanfarið ár, þá er það bæði svo að hlutabréf hafa verið að hækka umtalsvert í verði, bæði bankar og önnur fyrirtæki,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.

Skiptar skoðanir eru á fyrirhugaðri sölu, bæði í pólitíkinni en líka meðal fagfólks. Guðrún Johnsen lektor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn segir það koma á óvart að ætla að selja núna, ekki síst í ljósi efnahagsástandsins.

Óvissa um virði eigna

„Það sem kemur kannski líka svolítið á óvart varðandi vilja stjórnvalda að selja undir þessum kringumstæðum þar sem að stór hluti lánabókar Íslandsbanka er núna í frystingu, allt að 20% af lánabókinni eru lán sem fólk og fyrirtæki hafa fengið greiðslufrest á vegna ástandsins. Það leiðir til þess að það er óvissa um virði þeirra eigna, við gerum ekki ráð fyrir að það tapist allt saman að sjálfsögðu, en stærðirnar eru bara þannig, um er að ræða 184 milljarða sem er akkúrat allt eigið fé bankans,“ sagði Guðrún Johnsen.

Guðrún segir að þegar óvissa sé um eignir eða annað þá endurspegli verðið það og því líkur á að ríkið fái ekki raunvirði út úr sölunni. Þá segir Guðrún að við þær aðstæður séu ekki líkur til þess að ríkinu takist að laða þá fjárfesta að sem það vilji helst, það er þá sem hafa áhuga á arðsemi af venjulegri bankastarfsemi, heldur frekar fjárfesta sem sé áhættusamt fyrir ríkið að séu eigendur að bankanum. 

„Bara rétt eins og gerðist fyrir hrun þegar Baugur sóttist eftir því að verða stór eigandi að Glitni. Á þeim tíma var Baugur orðinn mjög stór lántaki í bankakerfinu og var farinn að koma að lokuðum dyrum og kom sér í þá stöðu að verða stór eigandi að Glitni til þess að auka lánagreiðslu fyrir sig og það er akkúrat það sem við viljum ekki,“ sagði Guðrún. 

 

Guðrún sér ekki fyrir sér að erlendir fjárfestir sýni bankanum áhuga. „Það hefur löngum verið draumur Íslendinga að fá hingað erlent bankafólk, það hefur bara ekki gerst og ég held að gjaldmiðill okkar sé þar stærstur þrándur í götu.“