Kópavogsbær ætlar að ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir í Hamraborg þar sem 550 íbúðir eru fyrirhugaðar. Áætlaður kostnaður er um 20 milljarðar og framkvæmdir munu taka nokkur ár. Mjög skiptar skoðanir eru um þessar hugmyndir á meðal íbúa.
„Við erum í rauninni að fara að umbylta Hamraborgarsvæðinu og í mínum huga mun Hamraborgin öðlast þann sess sem henni var ætlað á sínum tíma,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi. „Við erum að fara að fjölga íbúðum umtalsvert, eða um og yfir 500 íbúðir, en auk þess erum við líka að útbúa verslunar- og þjónustuhúsnæði hérna. Þannig að hugmyndin er sú að það verði hér iðandi mannlíf í framtíðinni, eins og Hamraborginni var ætlað á sínum tíma, en hefur því miður kannski ekki gengið eftir eins og við þekkjum.“
Margir lýsa andstöðu
Nokkrar byggingar á svæðinu verða rifnar til þess að rýma fyrir nýjum húsum. Þau hús verða á bilinu ein til tólf hæðir og öll bílastæði verða neðanjarðar. Gata fyrir gangandi og hjólandi mun svo liggja frá menningarhúsum Kópavogs að Kópavogsskóla. Ármann segir að stefnt sé að því að hefja framkvæmdir í lok þessa árs, og að þær geti tekið þrjú til fjögur ár. Kostnaður er áætlaður um 20 milljarðar og Ármann segir að þeir sem standi að framkvæmdum muni fjármagna verkið.
Skiptar skoðanir eru á þessum framkvæmdum á meðal íbúa, og sem dæmi má nefna að rúmlega 700 manns eru í Facebook-hópnum Vinir Hamraborgar, þar sem margir hafa lýst andstöðu við þessi áform.
„Við teljum raunverulega að hér sé stórslys á ferð,“ segir Tryggvi Felixson, Kópavogsbúi og einn þeirra sem hafa beitt sér í málinu. „Hér hefur bæjarfélagið afhent verktökum skipulagsréttinn. Og þeir ætla sér að koma hér fyrir miklu byggingarmagni, allt upp í tólf hæða húsum. Þeir ætla að brjóta niður og það hefur ekki verið tekið tillit til íbúanna á þessu svæði. Og bærinn er á algjörum villigötum með þetta mál og hefur ekki ráðfært sig við íbúana.“
Ármann segir að þetta sé ekki rétt, skipulagsvaldið sé hjá bæjarstjórn og að tekið hafi verið tillit til þeirra athugasemda sem fram hafi komið.
Tryggvi segir að fleiri athugasemdir séu gerðar við fyrirhugaðar framkvæmdir.
„Það vantar skilning á því að umhverfið þarf að vera vænt fyrir fólkið sem býr hérna. Það er ekki hægt að setja hús hátt upp í loft með öllum þeim vindhviðum og öllu því sólarleysi sem því fylgir,“ segir Tryggvi.
„Ég skil þessar áhyggjur því að ég er búinn að vinna hérna í allmörg ár og það er mikill vindur hérna,“ segir Ármann. „En það er búið að liggja yfir þessu og það hafa komið fram athugasemdir því þetta er búið að fara í gegnum nokkur kynningarferli. Þetta á allt saman að ganga upp og að sjálfsögðu tökum við allar athugasemdir og förum vel yfir þær.“
Kynningarfundur á fimmtudag
Þá hafa íbúar einnig lýst áhyggjum yfir að svæðið ráði ekki við þá bílaumferð sem fylgir svo mörgum íbúðum.
„Það er búið að fara mjög vel ofan í þessa þætti en þetta svæði hér er mjög sérstakt að því leyti til að hér munu tvær línur borgarlínunnar liggja í gegn, sem er alveg einstakt,“ segir Ármann. „Þannig að það verður mjög raunhæft að búa hér án þess að eiga bíl.“
Kópavogsbær stendur fyrir kynningarfundi um breytingarnar á fimmtudaginn. Tryggvi er á meðal nokkurra íbúa sem standa að stofnun hópsins Vinir Kópavogs, sem ætar að láta til sín taka.
„Vinur er sá er til vamms segir. Hér hafa bæjarstjórn og bæjaryfirvöld algjörlega brugðist. Þess vegna þurfum við að koma fram. Okkur er það ekki ljúft. En okkur er það skylt,“ segir Tryggvi.