Það er misvísandi að skella allri skuldinni á Trump þó hann beri mikla ábyrgð, segir Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrum forseti Íslands, um tildrög árásarinnar á þinghúsið í Washington í síðustu viku. Árásin hafi breytt stöðu Bandaríkjanna á alþjóðasviðinu.
„Í hvert sinn sem ég geng um bygginguna hef ég alltaf fyllst lotningu vegna þeirrar sögu og þeirrar sýnar á lýðræðið sem þessi bygging felur í sér. Hún er í raun eins konar helgidómur lýðræðisins. Til að skilja hvaða áhrif það hefur á sálarlíf, þjóðfélag og stjórnmál í Bandaríkjunum að sjá múginn taka yfir þessa byggingu með þeim hætti sem gert var. Það er kannski erfitt fyrir okkur Evrópubúa að skilja hvaða sess þessi bygging hefur í sálarlífi bandarísku þjóðarinnar, hún er eins konar hof bandaríska draumsins,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands um þinghúsið í Washington sem ráðist var á í síðustu viku. Ólafur Ragnar var til viðtals hjá þeim Sigmari Guðmundssyni og Rúnari Róberts í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.
„Fyrir Bandaríkjamenn að sjá múginn taka völdinn í þessari byggingu, setjast í hásæti forseta beggja deilda, taka yfir þingsalina og skrifstofur þingmanna og miðbik þinghússins sjálfs, það er eiginlega áfall sem ég held að eigi ekki bara eftir að lifa í ár og áratugi heldu aldir í vitund bandarísku þjóðarinnar,“ segir Ólafur Ragnar.
Þjóðin klofin í herðar niður
Talsvert hefur verið rætt um ábyrgð Donalds Trump, Bandaríkjaforseta á því að svo fór.
„Aðdragandinn er nokkuð langur. Það er misvísandi að skella allri skuldinni á Donald Trump þó að hann beri auðvitað mikla ábyrgð. Við sem höfum fylgst með Bandaríkjunum síðastliðin 40 ár og kynntumst þeim eins og þau voru á tímum Kennedys og Reagans og jafnvel fyrstu árum Clintons þá var hægt að tala um að einhverju leiti einhuga þjóð og djúpstæða samstöðu um höfuðþætti. Það er algjörlega liðin tíð. Nú eru Bandaríkjamenn og þjóðin algjörlega klofin í herðar niður," segir Ólafur Ragnar.
Hann segir klofninginn margþættan, djúpstæður pólitískur ágreiningur sé í landinu, gríðarleg efnahagsleg gjá milli hinna ríku og fátæku, kynþáttaágreiningur sem og trúarlegur ágreiningur. Þá sé ágreiningur um siðferðismál á borð við fóstureyðingar og sömuleiðis um eign skotvopna í landinu.
„Samfélagið er klofið á þann hátt og svo afgerandi að það er eðlileg spurning að samfélagið geti nokkru sinni náð samstöðu til að ráða við þau miklu vandamál sem þjóðin glímir við, bæði heima við og að ég tali nú ekki um á alþjóðlegum vettvangi."
Breytir stöðu Bandaríkjanna
Ólafur Ragnar segir árásina á þinghúsið eiga eftir að hafa varanleg áhrif á stöðu Bandaríkjanna á alþjóðasviðinu.
„Í fljótu bragði er nánast vonlaust fyrir Joe Biden að lækna þessi djúpstæðu sár á fjórum árum, þessi sár sem hafa verið að myndast á tuttugu árum. Sérstaklega vegna þess að ég held að þessi árás á þinghúsið hafi brotið sjálfsmynd Bandaríkjanna á þann hátt að hún liggur hún bara í brotum út um allt gólfið,“ segir Ólafur Ragnar.
Hann segir það skipta mestu máli fyrir heiminn er að þessi sýn að Bandaríkin séu forysturíki lýðræðis í veröldinni hafi horfið. Sú sýn hafi sömuleiðis horfið í vitund Bandaríkjamanna sjálfra eftir að hafa horft upp á innrásina í þinghúsið.
Ekkert ríki sem horfi upp á slíkt geti gert kröfu um að hafa forystu í lýðræðismálum annarra ríkja.
Hvað gera vopnaðir Bandaríkjamenn næst?
„Um 400 miljónir skotvopna í umferð meðal almennings í Bandaríkjunum. Það er um eitt skotvopn á hvern landsmann, allt frá börum í vöggu og upp í gamalmenni. Stóra spurningin um næsta skrefið er kannski ekki hvort Joe Biden tekst að lækna þessi sár á skömmum tíma. Stóra spurningn er hvað gerist næst þegar múgurinn mætir næst. Því hann mun gera það, það er alveg ljóst. Sannfæring þessa fólks er að það ætlar ekki að gerast upp. Milljónir þeirra eru sannfærðir um að kosningunum hafi verið stolið, að hinn réttkjörni forseti sé Donald Trump og að það sé kominn tími til að fólkið sem styðji hann taki bara vandastofnanirnar yfir. En þegar það mætir aftur, mun það þá mæta með byssurnar? Það er hin stóra spurning,“ segir Ólafur Ragnar.
„Ég er búinn að segja lengi að Trump er ekki sjúkdómurinn, hann er sjúkdómseinkenni. Þessi viðhorf, þessi klofningur og átök og ólga sem okkur Íslendingum og Evrópubúum er mjög framandi var búin að krauma lengi áður en Donald Trump mætti á vettvang. Hann hins vegar nýtti sér það með mjög markvissum og ósvífnum hætti. En þó að Trump myndi hverfa, bara setjast í helgan stein og spila golf þá er þessi djúpstæði ágreiningur í Bandaríkjunum enn til staðar.“
Viðtalið við Ólaf Ragnar Grímsson má hlýða á í heild sinni í spilaranum hér að ofan.