Tveir göngumenn voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á slysadeild Landspítalans eftir slys við Móskarðshnjúka upp úr tvö í dag. Fjöldi viðbragðsaðila á vegum bjögunarsveita og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins voru á svæðinu. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er slysið alvarlegt en þyrlan var að störfum í meira en klukkustund.

Björgunarsveitarmenn og sjúkraflutningamenn komust á vettvang á sexhjólum. Eftir því sem fréttastofa kemst voru aðstæður nokkuð krefjandi, kalt var í veðri og einhver vindkæling og síðan klaki í hlíðum fjallsins.

Fréttastofu hefur ekki upplýsingar um líðan fólksins. Ásgeir Þór Ásgeirsson hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við fréttastofu að fyrstu tilkynningar bentu til þess að fólkið hefði dottið nálægt toppnum Svínafellsmegin.  Borist hafi ábendingar frá öðru göngufólki um að aðstæður í fjallinu hafi verið mjög erfiðar, þar hafi verið kalt og hart og jafnvel svell á sumum köflum.

Alltaf er tekið alvarlega þegar fólk dettur í hlíðum fjalls og sú regla höfð að hafa meiri viðbúnað en minni. Ekki liggur fyrir hvort fólkið var hluti af stærri hópi eða var eitt á ferð.

Fréttin hefur verið uppfærð