Útlit er fyrir að lítið af bóluefni verði til skiptanna fyrstu þrjá mánuði ársins. Það er ein af ástæðum þess að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir endurskoðaði forgangsröðun bólusetninga í gær.
Þórólfur sagði á upplýsingafundi Almannavarna og landlæknis í dag að í lok mars verði Ísland búið að fá alls um 50.000 skammta af bóluefni frá Pfizer og um 10.000 skammta frá Moderna.
Með þessum 60.000 skömmtum má bólusetja um 30.000 manns. Þetta eru tölur sem byggðar eru á nýjustu dreifingaráætlunum fyrirtækjanna en eins og Þórólfur hefur áður bent á getur sú áætlun breyst fyrirvaralaust. Nú þegar hefur 10.000 skömmtum verið úthlutað til Íslands.
Dreifingaráætlun AstraZeneca væntanleg
Markaðsleyfi fyrir bóluefni AstraZeneca er nú til umfjöllunar hjá Lyfjastofnun Evrópu. Um leið og markaðsleyfi liggur fyrir fær Ísland dreifingaráætlun frá fyrirtækinu.
Bóluefnið frá AstraZeneca er öðruvísi en bóluefni Moderna og Pfizer. Með því er veiklaðri veiru sprautað í fólk svo það geti myndað mótefni. Í hinum bóluefnunum tveimur, sem lyfjastofnanir Evrópu hafa þegar samþykkt svokölluðu mRNA-bóluefni sprautað í fólk.
Fleiri hópar ekki bólusettir fyrr en í apríl
Næstu sendingar af bóluefni verða notaðar til að ljúka við að bólusetja þá hópa sem endurskoðun Þórólfs nær til. Framlínustarfsmenn í heilbrigðisþjónustu verða fyrst bólusettir, svo fólk eldra en 70 ára og með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma. Þórólfur segir ólíklegt að hægt verði að bólusetja fleiri hópa fyrr en eftir mars.
„Þess vegna hefur verið byrjað á að bólusetja íbúa hjúkrunar- og sérbýla og fólk með undirliggjandi sjúkdóma ásamt framlínustarfmönnum heilbrigðisþjónustunnar. Áætlað er að klára að bólusetja framlínustarfsmenn með næstu sendingu bóluefna og jafnframt að halda áfram að bólusetja einstaklinga eldri en 70 ára. Alls telja þeir um 34.000 manns,“ sagði Þórólfur.
Eins og staðan er núna er ekki hægt að panta tíma í bólusetningu hjá heilsugæslunni eða Landspítalanum. Gert er ráð fyrir að öllum Íslendingum verði boðin bólusetning. Enn ríkir of mikil óvissa um hversu hratt er hægt að framleiða bóluefnið og um leið hvenær hægt er að ljúka bólusetningu hér á landi.