„Ég er svekktur að fara ekki með að minnsta kosti eitt stig út úr þessu,“ voru fyrstu viðbrögð Guðmundar Guðmundssonar landsliðsþjálfara Íslands í handbolta eftir tveggja marka tap á móti Portúgal í undankeppni EM 2022 í Portúgal í kvöld. Leiknum lauk 26-24 fyrir Portúgal.

„Mér fannst í síðari hálfleik eiginlega vera allir möguleikar í stöðunni, en við klúðruðum tveimur vítaköstum, hraðaupphlaupi og dauðafæri. Það er bara of mikið til að fá hagstæð úrslit,“ sagði Guðmundur eftir leikinn í kvöld.

Guðmundur var spurður út í stirðan sóknarleik framan af í leiknum, en var ekki endilega sammála því að hann hafi verið það. „Stirður eða ekki stirður. Við vorum bara með ákveðna uppstillingu í byrjun. Það gekk svona ýmislegt ágætlega. En það er rétt að boltinn hefði kannski mátt ganga betur. Við töluðum um það í hálfleik að við þyrftum að fá meira flot á boltann og slíta þá aðeins betur í sundur, sem við gerðum í síðari hálfleik. Síðari hálfleikurinn var betri sóknarlega. En það er hins vegar þannig að við sköpuðum okkur færi í þessum leik og hefðum auðveldlega getað farið héðan með eitt eða tvö stig ef við hefðum bara farið aðeins betur með þessi færi sem við sköpuðum okkur.“

Skandall að ekki hafi verið gefið rautt spjald

Alexander Petersson var sleginn í gólfið í tvígang í byrjun leiks. Joao Miguel Ferraz braut sérlega illa á Alexander og slapp með skrekkinn þegar hann fékk aðeins tveggja mínútna brottvísun. Alexander kom ekkert meira við sögu í leiknum eftir það. En hver er staðan á Alexander?

„Ég get bara ekki dæmt um það. En það er náttúrulega bara skandall að það skuli ekki vera gefið rautt spjald hér. Þetta er bara líkamsárás og ekkert annað. Það þarf nú mikið til að kýla Alexander Petersson út úr leik. Það get ég sagt þér. Ég veit ekkert með stöðuna á honum. Við tókum enga sénsa. Honum leið illa. Ég vona það bara að hann jafni sig núna á næstu dögum vegna þess að við þurfum auðvitað á honum að halda,“ sagði Guðmundur.

Eiga margt inni

En hvað þarf að laga fyrir leikinn við Portúgal á Ásvöllum á sunnudaginn? „Það er bara eitt oga annað. Varnarleikurinn var á löngum köflum mjög góður. Við eigum inni betri markvörslu. Við eigum inni kannski betri vörn, sérstaklega sex á móti sjö. Mér finnst sóknarlega við geta bætt okkur. Sérstaklega þurfum við að vera meðvitaðir um það að boltinn þarf að vinna fyrir okkur. Við þurfum að vera þolinmóðari. En auðvitað þurfum við líka að fara betur með þau færi sem við fáum, og þau voru fjölmörg og algjör dauðafæri. Það er raunverulega það sem mér finnst vera munurinn á liðunum þegar upp er staðið,“ sagði Guðmundur.