Starfsfólki Landspítala tókst að ná 5,4 skömmtum úr hverju mæliglasi af bóluefni Pfizer BioNTech með því að viðhafa sitt venjulega verklag, til samanburðar náði heilsugæslan aðeins fimm skömtum. 

Í stað þess að farga því sem var eftir í glasinu, þegar búið var að ná fimm skömmtum blandaði starfsfólk Landspítala restunum saman. Þetta er ekkert nýtt fyrir starfsfólki spítalans. „Við ákváðum að viðhafa bara hefðbundið verklag í blöndun hjá okkur, þegar við erum að meðhöndla svona dýr lyf og verðmæt, þar er þrautþjálfað starfsfólk sem er í þessu allan daginn og hefur mikla þekkingu og færni í þessu,“ segir Hlíf Steingrímsdóttir,  framkvæmdastjóri aðgerðarsviðs á Landspítalanum. 

Þórólfur varaði við blöndun

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði á upplýsingafundi í dag að það geti boðið hættunni heim að blanda saman afgöngum til að fá fleiri skammta. Lyfjastofnun getur ekki mælt sérstaklega með þessu verklagi, og það gera lyfjaframleiðendurnir ekki heldur, en Hlíf segir það öruggt, starfsfólk Landspítalans hafi ekki tekið mikla áhættu eða beinlínis farið gegn fyrirmælum Lyfjastofnunar. Svona sé þetta líka gert í löndunum í kringum okkur. „Við fórum náttúrulega í áhættumat og tryggjum það að rekjanleikinn sé til staðar, þannig að það er allt tekið úr sömu lotunni, við tryggðum fyllsta öryggi en á móti var ávinningurinn af því að geta bólusett 80 manns til viðbótar núna í fyrstu atrennu þegar bóluefni er af svona skornum skammti.“

Náðist alltaf jafn mikið

Það náðust 5,4 skammtar úr hverju einasta glasi, Hlíf hefur því ekki áhyggjur af því að það náist færri skammtar úr glösunum þegar kemur að því að framlínustarfsfólkið fái seinni sprautuna, seinna í janúar. 

Opin fyrir samstarfi

Hlíf segist ekki vilja dæma um hvort heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu, sem náði fimm skömmtum úr hverju glasi, hafi sólundað bóluefni en segist opin fyrir samvinnu, því að starfsfólk Landspítala aðstoði starfsfólk heilsugæslunnar við að nýta efnið betur. „Ég held að við þurfum bara að skoða það í framhaldinu hvernig við vinnum þetta áfram.“