Þrátt fyrir að mikið hafi verið hlustað á tónlist á Íslandi á nýliðnu ári, á bæði sala og streymi á íslenskri tónlist undir högg að sækja. Tekjur af íslenskri tónlist sem streymt var á Spotify á nýliðnu ári nema hátt í 250 milljónum króna. Vínylplatan virðist ekki hafa verið vinsælli um langt skeið.

Á nýliðnu ári varði fólk meiri tíma heima hjá sér en venjulega. Það birtist meðal annars í því að Íslendingar virðast hafa hlustað á tónlist sem aldrei fyrr. Félag hljómplötuframleiðenda hefur tekið saman nokkrar tölur fyrir fréttastofu.

Spotify er langvinsælasta streymisveita á Íslandi. Á árinu töldust streymi 1,2 milljarðar hér á landi, þar af rúmlega 1,1 milljarður á Spotify, en öll streymi sem eru umfram 30 sekúndur telja. Rúmlega 18% þeirra streyma var íslensk tónlist.

Ein króna á streymi

Meðalnotandinn hlustaði á tónlist í 300 klukkutíma á árinu, eða rúmlega 13 sólarhringa. Rúmlega 100.000 manns greiða áskrift að tónlistarveitum hér á landi, og samkvæmt upplýsingum frá Félagi hljómplötuframleiðenda eru um 98% þeirra hjá Spotify.

Eitt streymi á lagi á Spotify skilar um það bil einni krónu í vasa útgefanda, flytjanda og höfundar viðkomandi lags. Félag hljómplötuframleiðenda telur að streymi á íslenskri tónlist á Spotify hafi skilað 230 til 250 milljónum fyrir árið 2020. Velta af sölu og streymi tónlistar á Íslandi hefur ekki verið hærri í að minnsta kosti tíu ár. Félag hljómplötuframleiðenda segir að þrátt fyrir það séu tekjur íslenskra tónlistarmanna af sölu mun lægri en á tímum geisladisksins, þegar allt að 80% seldra diska voru íslenskir.

Á meðal þeirra íslensku tónlistarmanna sem mest var hlustað á á árinu má nefna Bríeti, Bubba, Jóa Pé og Króla, Auði, Ásgeir Trausta, Ingó Veðurguð, Hafdísi Huld, Herra Hnetusmjör og GDRN.

„Það vantar túristana“

En þótt streymi og tónlist á stafrænu formi sé allsráðandi hefur orðið mikill kippur í sölu á vínylplötum. Plötubúðin.is var opnuð í febrúar og þar gekk vel að selja vínylplötur á árinu.

„Bara mjög vel, ég myndi segja það. Það hefur gengið framar vonum,“ segir Haraldur Leví Gunnarsson, eigandi Plötubúðarinnar.is

Haraldur Leví segir að vínylplötusala hafi aukist mikið frá í fyrra. Mörgum finnist skemmtilegra að hlusta á plötur en að hlusta á tónlist með stafrænum hætti, auk þess sem margir séu búnir að koma sér upp plötuspilara. Gallinn sé hins vegar sá að íslensk tónlist seljist ekki nógu vel.

„Það hefur ekki gengið alveg nógu vel finnst mér. Það vantar túristana sem hafa verið duglegir að kaupa, og alla tónleika sem spila stórt inn í heildarsölu á íslenskri tónlist. Þannig að ég væri til í að vera að selja meira af íslenskri tónlist.“ 

Þannig að þetta er mikið erlend tónlist sem er að seljast?

„Alveg langmest,“ segir Haraldur Leví.