Ólöf Gerður Sigfúsdóttir horfir til baka og skoðar hvaða viðfangsefni hafa verið efst á baugi hjá myndlistarmönnum þetta árið. Einnig veltir hún fyrir sér hvaða áhrif faraldurinn eigi eftir að hafa á starfsemi safna og sýningarstaða, sem og hegðun menningarunnenda.


Ólöf Gerður Sigfúsdóttir skrifar:

Árið 2020 var gott myndlistarár þrátt fyrir vírusfaraldur og brokkgengan opnunartíma sýningarstaða. Tvö tímabil lokunar gengu yfir frá því snemma í vor og settu strik í reikninginn hjá þeim söfnum, galleríum og listamönnum sem unnið höfðu hörðum höndum að veglegri sýningardagskrá ársins. Já, plágan hefur svo sannarlega takmarkað myndlistarsenuna á árinu, og rétt eins og á öllum öðrum sviðum samfélagsins mun ruðningsáhrifanna eflaust gæta langt fram á næsta ár. Sýningardagskrá hefur riðlast, líftími sýninga styst í mörgum tilfellum svo um munar, og stórar árlegar hátíðir eins og Listahátíð í Reykjavík og List án landamæra voru haldnar í skugga faraldursins.

Nú þegar sóttvarnatakmarkanir eru orðnar fastur veruleiki hafa flest listasöfn brugðið á það ráð að setja aukinn kraft í samfélagsmiðla, hlaðvörp og hvers konar miðlun í gegnum internetið. Ég kann vel að meta þessa viðleitni og hef fylgt velflestum sýningarstöðum á landinu í gegnum Facebook og Instagram og skoðað vefsíður þeirra oftar og betur en nokkru sinni áður. Rétt eins og margir menningarnjótendur hef ég sótt fleiri málþing, fyrirlestra, ráðstefnur, listamannaspjöll, sýningarstjóraspjöll og aðra viðburði á vegum listasafna, menningarminjasafna og háskóla hér á landi í gegnum streymi en ella, hefði ég þurft að fara á staðinn í hvert sinn. Takmarkanir og lokanir hafa því haft ýmislegt jákvætt í för með sér, svo ekki sé minnst á nánast óheft aðgengi að alþjóðlegri fagumræðu sem opnast hefur svo um munar í kjölfar faraldursins á heimsvísu. Maður hefur varla haft við að leita uppi Zoom-linka í tölvupóstinum, og í raun hef ég aldrei upplifað mig jafn tengda umheiminum eins og einmitt á þessu ári, árinu sem ég ferðaðist aldrei út fyrir landsteinana.

En þótt lokanir í raunheimum hafi opnað rafrænar dyr upp á gátt, þá verður að segjast að það kemur ekkert í staðinn fyrir heimsókn á safn eða gallerí. Myndlistin er fyrst og fremst sjónrænn miðill sem byggist á virkjun allra skynfæra þess sem horfir. Að virða fyrir sér myndlist er líkamleg upplifun sem er háð rými og tíma, og setur í gang gagnvirkt áhrifasamband manns sjálfs við verkið og rýmið sem það er í. Það að horfa á myndlistarverk á tvívíðum skjá nær þess vegna aldrei alveg að fanga efnisleikann, áferðina, skalann, massann og samspilið við rýmið og eigin líkama, sem verður til í þessu sambandi manns við orginal verk. Engu að síður er þessi aukna notkun á samfélagsmiðlum og rafrænt aðgengi jákvæð þróun sem vonandi leiðir af sér fleiri myndlistarnjótendur og hjálpar þannig söfnum og galleríum að ná til nýrri og fleiri hópa fólks, sem jafnvel eru alla jafna ekki reglulegir gestir sýningarsala. Þarna þarf ekki að borga aðgangsmiða, og tilfinningin um að þurfa að setja sig í stellingar við að ganga inn á listasafn hverfur.

Það verður því áhugavert að sjá hverju fram vindur í samfélagsmiðlavæðingu myndlistarvettvangsins, og hvaða varanlegu áhrif faraldurinn á eftir að hafa á starfsemi safna og annarra sýningarstaða, um leið og það blasir við að sérhver stofnun þarf að horfast í augu við samdrátt og leiðir til að takast á við alvarlegan tekjumissi á þessu ári.

Þematengdar sýningar

En snúum okkur þá að því helsta sem íslensk myndlistarsena hefur boðið upp á árinu sem er að líða. Þegar litið er yfir sviðið má greina nokkrar meginlínur í annars gróskumikilli og fjölbreyttri dagskrá, hvort sem er í stóru listasöfnunum, listamannareknu sýningarrýmunum eða smærri söfnum bæði hér á höfuðborgarsvæðinu sem úti á landi. Þannig voru stórar alþjóðlegar samsýningar tengdar umhverfismálum nokkuð áberandi á árinu, með áherslu á hið viðkvæma samband manns og náttúru.

Hnattræn hlýnun og öfgafullar umhverfis- og veðurbreytingar voru viðfangsefni Norðursins, sýningar sem nýverið lauk í Listasafni Árnesinga í sýningarstjórn Daríu Sólar Andrews. Á sýningunni fjölluðu sex listamenn frá Íslandi, Svíþjóð og Finnlandi um þær breytingar sem hafa orðið á ásýnd landanna við heimskautsbaug, landslagi sem rómað er fyrir ósnortna fegurð og víðerni en hafa nú orðið fyrir óafturkræfum áhrifum af mannanna völdum. Áhugaverðu hlaðvarpi var haldið úti meðfram sýningunni sem gaf henni frekari dýpt, samhengi og tilefni til íhugunar og umræðu til viðbótar við verkin sjálf.

Þema norðursins teygði anga sína út fyrir okkar nánasta umhverfi hér á Norðurlöndum til vesturs og yfir til Kanada á sýningunni Villiblómið í Hafnarborg, í sýningarstjórn Becky Forsythe og Penelope Smart. Þær völdu til liðs við sig ellefu íslenska og kanadíska listamenn sem beindu sjónum sínum að viðkvæmri stöðu plönturíkisins og margræðum birtingarmyndum jarðargróðurs á norðurslóðum. Pælingar tengdar hinu villta og hinu beislaða voru settar fram í mikilli breidd, með áherslu á tengingar við nýlenduvæðingu, umhverfisaktívisma og femínisma. Sýningin var lokuð stóran hluta af sýningartímanum og eflaust margir sem misstu af, en henni fylgdi einnig útgáfa með áhugaverðum greinum eftir innlenda og erlenda fræðimenn sem nota má sem uppbót.

Náttúruþemað birtist svo einnig á haustsýningu Listasafns Reykjanesbæjar, Áfallalandslagi, þar sem náttúruhamfarir í okkar nánasta umhverfi og áföll sem tengjast þeim voru viðfangsefnið, með þátttöku fimm íslenskra listamanna í sýningarstjórn Helgu Þórsdóttur, nýs safnstjóra safnsins. Á sýningunni var fókusnum beint að innra landslagi og tilfinningum fremur en náttúrunni sjálfri, og tilraun gerð til að skapa tengingar þarna á milli. Og norðrið sem viðfangsefni í myndlist teygði anga sína allt niður í kjallara Norræna hússins, þó með allt öðrum formerkjum.

Sýningin Undir niðri, sem nú stendur yfir í Hvelfingu Norræna hússins, bregður félagspólitískri linsu á norðrið, og fjallar á gagnrýninn hátt um normalíseringu hins kynjaða. Á sýningunni kafa níu norrænir listamenn ofan í undirmeðvitundina og skoða kenndir og óra tengda kynvitundinni, í því markmiði að hrófla við hefbundnum birtingarmyndum kyns og kynhegðunar í samtímanum. Sýningin er því ögrandi á allt annan hátt en sýningarnar í Listasafni Árnesinga, Hafnarborg og Listasafni Reykjanesbæjar, en ekki síður brýnt innlegg í samfélagsumræðuna.  

Yfirlitssýningar

Á árinu voru haldnar nokkrar yfirlitssýningar myndlistarmanna sem þegar hafa fest sig í sessi í íslenskri myndlistarsenu. Yfirlitssýningar krefjast allt annarar skoðunar en þematengdar sýningar eins og þær sem ég fjallaði um hér að ofan, og gefa frá sér allt aðra þekkingu og reynslu. Yfirlitssýningar eru fastur liður í dagskrá margra safna, en þær eru áhugaverður gluggi inn í feril einstakra listamanna og gefa góða yfirsýn yfir þróun þeirra yfir langan tíma. Auk þess eru þær afar mikilvægt skrásetningar- og greiningartæki fyrir íslenska listasögu, sem opinber söfn bera jú ábyrgð á að halda utan um og rita. Þá eru þær einnig mikilvæg áminning um arfleifð horfinna listamanna og góð leið til að halda minningu þeirra á lofti í samhengi við samtímalistina.

Sýning Ástu Ólafsdóttur, Hjartsláttur, fór fram á haustmánuðum í Nýlistasafninu, safni sem hún sjálf tók þátt í að stofna og móta fyrir rúmum 40 árum síðan. Ásta er ein af virkustu myndlistarmönnum sinnar kynslóðar og dýrmætt að sjá verk hennar og þróun hennar myndlistarferils í samhengi við samtímalistasenuna. Nýlistasafnið stóð fyrir annarri yfirlitssýningu á árinu, en í mars opnaði sýning á verkum Erlings Klingenberg, þar sem sjá mátti verk af 25 ára ferli þessa listamanns, sem skoðar gjarnan hvaða merkingu það hefur að vera listamaður, þar sem húmorinn er ekki langt undan.

Þá standa yfir um þessar mundir tvær aðrar yfirlitssýningar, annars vegar á verkum Sigurðar Árna Sigurðssonar, Óravídd, á Kjarvalsstöðum, og hins vegar á verkum Þorvaldar Þorsteinssonar heitins, Lengi skal manninn reyna, í Listasafninu á Akureyri.

Þá hélt Listasafn Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum yfirlitssýningu fyrr á árinu á verkum Ásgerðar Búadóttur, brautryðjanda á sviði textíllistar hér á landi. Sýningin var haldin í tilefni af því að 100 ár voru frá fæðingu Ásgerðar og skartaði mörgum af hennar fallegustu og áhugaverðustu verkum, auk þess sem safnið stóð fyrir málþingi undir yfirskriftinni „Samtal um konur, handverk og frjálsa myndlist“. Áhrifa Ásgerðar gætti víðar, því síðar á árinu stóð Listasafn Íslands fyrir samsýningunni Listþræðir, þar sem verk hennar voru skoðuð í samhengi við aðra listamenn sem vinna með textíl og vefnað í sinni listsköpun. Sú sýning stendur yfir til 24. janúar.

Alþjóðleg myndlist á Íslandi

En þá að alþjóðlegum straumum. Teljast verður til tíðinda að tvær stórar sýningar alþjóðlegra listamanna hafi borist til landsins á þessu ári, báðar á vegum Listasafns Reykjavíkur. Þetta var annars vegar sýning á verkum bandaríska konseptlistamannsins Sol LeWitt, og hins vegar bresta listamannadúósins Gilbert & George.

Þetta eru ólíkar sýningar; Gilbert & George með sínar spaugilegu ögranir á borgaralegum hugmyndum um smekk og velsæmi, og Sol LeWitt með sín mínímalísku hugmyndaverk sem hafa haft afgerandi áhrif á þróun alþjóðlegrar listasögu. Sýningar af þessu kaliberi eru afar kærkomin viðbót við íslenska myndlistarsenu, og draga örlítið úr einangrunartilfinningunni sem stundum gerir vart við sig í þeim litla menningarheimi sem við búum við hér á landi. Sýning Sol LeWitt fannst mér einstaklega áhrifarík og vel heppnuð, sér í lagi samspil veggverkanna við súlur rýmisins og Hafnarhúsið yfirleitt, og algjörlega frábært að fá tækifæri til sjá verk þessa merka listamanns hér í íslensku samhengi. Þá hefur mér fundist sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með innslögum tengdum sýningu Gilberts & George, The Great Exhibition, þar sem þekktir listamenn segja frá upplifunum sínum af völdum verkum undir yfirskriftinni „Listaverkið og ég“, oft á mjög spauglegan og afhjúpandi hátt. Þannig má fá nasasjón af verkunum nú þegar samkomutakmarkanir eru enn í gildi þótt sýningin sjálf sé opin til 17. janúar. Ég mæli með að hlustendur kynni sér þessi innslög á vefsíðu safnsins eða Facebook-síðu þess, tilvalið að melta jólakonfektið yfir þeim.

Í þessum pistli hefur fyrst og fremst verið fjallað um stóru línurnar sem birtast þegar litið er til baka yfir myndlistarárið sem senn er á enda. Um leið verður að minnast á öll smærri sýningarrýmin, litlu galleríin og sjálfsprottnu vettvangana sem haldið er uppi af ástríðu og með óeigingjarnri vinnu þeirra sem að þeim standa. En þetta sambland rótgróinna rýma annars vegar, sem rekin eru með reglulegum stuðningi stöndugra bakhjarla eins og sveitarfélaga og ríkis, og hins vegar listamannarekinna rýma í grasrótinni, sem háð eru óreglulegum og brigðulum stuðningi ýmissa aðila ár frá ári, er merki um heilbrigt menningarástand, sem ríkir vonandi áfram á næsta ári þrátt fyrir þá rekstrarerfiðleika sem faraldurinn hefur þegar orsakað.

Um leið og ég þakka myndlistarmönnum og öðru fagfólki í menningargeiranum fyrir erfitt og þrautseigt myndlistarár, óska ég lesendum öllum gleðilegs nýs árs, og vonast til að 2021 verði takamarkalaust og óheft á öllum sviðum samfélagsins.