Íslensk stjórnvöld undirrituðu í dag samning við lyfjafyrirtækið Moderna um kaup á 128 þúsund bóluefnaskömmtum. Forstjóri Lyfjastofnunar segir þetta bóluefni einfaldara í meðhöndlun heldur en það sem kemur frá Pfizer.
Moderna áætlar að hefja afhendingu á bóluefninu á fyrstu mánuðum nýs árs. Búist er við að það fái markaðsleyfi í Evrópu í næstu viku og fljótlega eftir það á Íslandi.
Líkt og með bóluefni Pfizer þá þarf tvær sprautur með nokkurra vikna millibili til að hámarka virkni efnisins.
„Þetta er mjög svipað og þetta Pfizer bóluefni. Þetta er sem sagt mRNA tækni. Það eru genaupplýsingar sem eru fluttar inn í líkamann og afritast þar og framleiða þessi gaddaprótein. Þá myndar líkaminn mótefni gegn því og svo er það endurræst í annarri bólusetningu,“ segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg forstjóri Lyfjastofnunar.
Pfizer bóluefnið þarf að geymast við allt að 80 stiga frost en hjá Moderna dugar að geyma það í 20 stiga frosti.
„Það gerir það svolítið einfaldara bæði í flutningum og meðhöndlun,“ segir Rúna.
Íslensk stjórnvöld skrifuðu einnig í dag undir samning við Pfizer um kaup á 80 þúsund skömmtum til viðbótar.