Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, sagðist vera með „fiðrildi í maganum“ þegar hún tók við fyrstu skömmtunum af bóluefni Pfizer og BioNTech í höfuðstöðvum Distica í morgun. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði þetta mikinn gleðidag í baráttunni við COVID-19 og að nú væri nýr kafli að hefjast. Ekki liggur fyrir hver verður bólusettur fyrstur.

Svandís og þríeykið veittu bóluefninu móttöku við hátíðlega athöfn í húsakynnum Disticta undir vökulu auga vopnaðra sérsveitarmanna frá embætti ríkislögreglustjóra, nákvæmlega tíu mánuðum eftir að smit var staðfest í fyrsta skipti hér á landi.

Fimmtíu þúsund skammtar á næstu mánuðum

„Dagurinn í dag er dagur góðra frétta,“ sagði Svandís þegar hún ávarpaði samkomuna. Bros væri undir öllum grímum og þessir fyrstu tíu þúsund skammtar ættu að duga til að bólusetja alla íbúa hjúkrunarheimila og framlínustarfsfólk í heilbrigðisþjónustunni.  

Ráðherrann sagði kórónuveiruna hafa gjörbreytt lífi fólks og ástæðan fyrir þessari hröðu þróun bóluefna væri samstaða og savminna. „Lærdómurinn af kórónuveirufaraldrinum er margháttaður en sá stærsti er að við erum sterkari saman.“ Ísland hefði tryggt sér meira bóluefni en við þyrftum á að halda en bóluefnið frá Pfizer væri það sem við hefðum í hendi. Von væri á fimmtíu þúsund skömmtum á næstu mánuðum en tók skýrt fram að samningurinn við Pfizer hljóðaði uppá 175 þúsund skammta.

Svandís upplýsti að skrifað yrði undir samning við bóluefnaframleiðandann Moderna þann 30. desember en það verður væntanlega næsta bóluefni sem fær skilyrt markaðsleyfi hjá Lyfjastofnun Evrópu. Jákvæðar fréttir hefðu sömuleiðis borist frá Bretlandi varðandi bóluefni AstraZeneca en bresk stjórnvöld munu að öllum líkindum leggja blessun sína yfir bóluefnið á næstu dögum.  

Sóttvarnalæknir hvetur fólk til að bólusetja sig

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði þetta mikinn gleðidag í baráttunni við COVID-19. Hún hefði verið löng og ströng en nú væri nýr kafli að hefjast. „Með komu bóluefnisins hyllir loks í það að við getum snúið baráttunni okkur í hag.“ Rannsóknir hefðu sýnt að bóluefnið væri mjög virkt og mjög öruggt. „Ég vil því hvetja alla sem stendur það til boða til að taka því fagnandi.“ 

Þórólfur hvatti alla landsmenn til að láta bólusetja sig því það væri forsenda þess að við næðum tökum á faraldrinum. „Fögnum því í dag þessum áfanga en munum líka að við þurfum áfram að halda þeim sóttvörnum sem við höfum staðið okkur svo vel í að viðhafa til þessa. Með vaxandi bólusetningum mun okkur takast að komast út úr þessu kófi.“