Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra og formaður Framsóknarflokksins segir óheppilegt að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi verið í samkvæmi þar sem sóttvarnareglur voru brotnar.
Sigurður segist hafa talað við Bjarna um málið á aðfangadag og segir að þetta komi ekki til með að hafa áhrif á stjórnarsamstarfið og kalli að hans mati ekki á afsögn Bjarna.
„Auðvitað er þetta óheppilegt í alla staði. Það er ekki gott fordæmi fyrir aðra svona eins og frásögnin er af þessu. Aðalatriðið er hins vegar í augsýn og aðalfréttir dagsins og næstu daga er að bólusetningar eru að hefjast. Þess vegna skiptir miklu máli að við séum öll, og ég legg áherslu á öll, þátttakendur í því að virða sóttvarnir þangað til við erum búin að ná bólusetningarferlinu í gang séum að fara út úr þessu COVID-ástandi,“ segir Sigurður Ingi.
Viðtalið við Sigurð Inga má sjá í spilaranum hér að ofan.