Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist ekki gera kröfu um að Bjarni Benediktsson segir af sér sem ráðherra. Mál hans skaði hins vegar traust á milli stjórnarflokkanna. Sóttvarnabrot ráðherra gefi ekki gott fordæmi út í samfélagið í þeim sóttvarnaaðgerðum sem eru í gildi.

„Ég ræddi við Bjarna í gær og tjáði honum óánægju mína með þetta og vonbrigði, því auðvitað er það þannig að það blasir við að þarna voru sóttvarnarreglur ekki virtar að hálfu þessara rekstraraðila sem voru þarna með einhverskonar opið hús og auðvitað hefði ráðherrann átt að átta sig á því þegar fjöldinn var orðinn sá sem greint hefur verið frá og hafði átt að viðhafast eitthvað eða yfirgefa staðinn sem hann gerði ekki,“ segir Katrín.

Finnst þér að hann eigi að segja af sér?

„Ég geri ekki kröfu um afsögn nei, en auðvitað er þetta mál sem skaðar traustið á milli stjórnarflokkanna í þeim stóru verkefnum sem við stöndum í og auðvitað hef ég áhyggjur af því,“ segir Katrín.

Viðtal við Katrínu má sjá í heild sinni hér að ofan.