Kristín Þorleifsdóttir vakti mikla athygli fyrir framgöngu sína með sænska landsliðinu á EM kvenna í handbolta. Kristín er alíslensk en fædd og uppalin í Svíþjóð. Hún segir að engu hefði mátt muna að hún léki fyrir íslenska landsliðið.

Kristín lék á sínu fyrsta stórmóti fyrir Svíþjóð núna og fékk sívaxandi hlutverk í liðinu eftir því sem á mótið leið. Hún skoraði 19 mörk í sex leikjum og var næstmarkahæst í sænska liðinu. „Ég hafði ekki gert mér miklar væntingar. Fyrst snerist þetta bara um að vera með í liðinu á EM. Við vorum tvær frekar nýjar í liðinu og ég bjóst ekkert endilega við því að spila mikið. En það var mjög ánægjulegt að fá svona mikinn spilatíma,“ sagði Kristín í viðtali við RÚV í dag.

Kristín er fædd og uppalin í Svíþjóð af íslenskum foreldrum. Hún lék með undir 16 og 18 ára liðum Íslands og segir að engu hefði mátt muna að hún hefði leikið með A-landsliði Íslands fyrir skömmu síðan. „Ég var reyndar valin í íslenska landsliðið áður en ég var valin í sænska landsliðið í fyrra. Ég átti þá að koma í æfingabúðir með Íslandi en áður en kom að því var ég valin í sænska landsliðið og valdi frekar Svíþjóð. En það hefði samt verið heiður að spila fyrir Ísland,“ sagði Kristín.

Kristín talar litla íslensku en segir það eiga sér einfalda skýringu. „Ég er fædd og uppalin í Svíþjóð og hef aldrei búið á Íslandi. Ég hef heldur aldrei lært íslensku. En það er mömmu minni og pabba að kenna því þau töluðu aldrei íslensku við mig á heimilinu. En kannski læri ég íslensku einhvern daginn. Ég vona það, því ég skil heilmikið í íslensku,“ sagði Kristín Þorleifsdóttir við RÚV í dag.