Samkvæmt þjóðtrúnni er fyrsti jólasveinninn, Stekkjarstaur, væntanlegur til byggða í nótt. Sóttvarnalæknir hefur veitt jólasveinunum heimild til að ferðast milli landshluta til að gefa í skóinn, en 13 fangaklefar eru til reiðu ef þeir brjóta sóttvarnareglur.
Jólasveinarnir verða að fara að öllu með gát vegna faraldursins. Þeir hafa passað sig hingað til en sóttvarnalæknir segir að enginn þeirra hafi fengið COVID-19.
„Þeir þora alveg að koma. Ég er búinn að tala við þá og þeir skilja alveg út á hvað þetta gengur og það er ekkert mál,“ segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Eins og aðrir þurfa þeir þó að fara eftir sóttvarnareglum, svona að mestu leyti.
„Þeir þurfa ekki að fara í sóttkví en það þarf að setja pinna í nefið á þeim og athuga hvort þeir séu alveg öruggir,“ segir Þórólfur.
„Þeir eru náttúrulega yfirleitt á ferðinni á nóttinni þegar enginn annar er þannig að þeir eiga alveg að geta sloppið við að vera með grímu,“ bætir Alma Möller, landlæknir, við.
Samkvæmt venju verður Stekkjastaur fyrstur bræðra sinna til að lauma gjöfum í skó þeirra barna sem hafa hagað sér vel.
„Maður á að spritta bæði fyrir og eftir það sem aðrir snerta þannig það er mjög skynsamlegt að spritta skóinn þegar hann fer út í glugga og líka þegar við tökum hann aftur og það sem er í skónum. En ef það er smákaka? Það er mjög ólíklegt að veiran lifi lengi á smáköku þannig ég myndi nú bara taka sénsinn á því,“ segir Alma.
Hér áður fyrr voru sveinarnir þjófóttir og brögðóttir, hnupluðu og léku á fé og menn. Þeir eru þó orðnir löghlýðnari í seinni tíð, og ætla að fylgja sóttvarnareglunum.
„Við þekkjum ágætlega þessa fjölskyldu sem þeir koma frá og foreldra þeirra líka mjög vel. Við erum búin að eiga þetta samtal nokkrum sinnum og við höfum ekki þurft að skipta okkur af þeim í mörg ár,“ segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn.
En ertu tilbúinn með þrettán fangaklefa ef það þarf að handtaka þá og setja í fangelsi?
„Já, við eigum þá til ef það þarf,“ segir Rögnvaldur.