Tilmæli almannavarna um svokallaða jólakúlu hafa vafist fyrir mörgum. Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að fólk eigi að velja sér tíu til að verja hátíðunum með. Börn og fólk sem hefur fengið COVID er ekki inn í þessum takmörkunum. Hann óttast fjórðu bylgjuna í kjölfar jólanna.

Almannavarnir hafa talað um að hver og einn eigi að velja sér jólavini- og fjölskyldu, eða jólakúlu, til að verja hátíðunum með. Samkomutakmarkanir miðast við tíu og því mega aðeins vera samtals tíu í hverri jólakúlu.

Hvað á fólk að gera sem á mörg börn og tengdabörn, hvaða reglur gilda yfir þau? „Þarna kemur að því að velja. Augljóslega ef fjöldinn er yfir tíu, þá er einhver sem þarf að taka að sér og sitja heima og fylgjast með í fjarfundi eða eitthvað álíka og svo hafa enn þá skemmtilegri hitting þegar það er hægt,“ segir Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Dæmi um jólakúlu

Eggert og Jóhanna eiga þrjú börn, eitt þeirra er undir fimmtán ára aldri og telst því ekki með í samkomureglum. Tvö barnanna eru eldri en fimmtán ára; þau eru því fjögur á heimilinu sem mega velja sér sex til viðbótar til að umgangast um jólin. Fólk sem hefur fengið COVID er ekki inn í fjöldatakmörkunum. Siggi frændi sem hefur lokið einangrun þarf því ekki að hafa áhyggjur af sinni eða annarra jólakúlu.

Vilji fólk skipta um tíu manna hóp, til dæmis milli jóla og áramóta er það hægt ef fólk fer mjög varlega og lætur nokkra daga líða milli boða. 

Passa sig extra vel í sjö daga fyrir ferðalög

Þar sem fólk kemur saman á það að forðast hlaðborð eða samskotsboð, takmarka snertifleti og lofta vel út. Þannig þið eruð ekki að mælast gegn því að fólk haldi jólaboð? „Jú, við erum eiginlega að því. Við viljum helst að fólk geymi jólaboðin og aðra hittinga ef það getur það.“

Þá er mælst til þess að fólk sem er á faraldsfæti milli landshluta um jólin fari mjög varlega dagana fyrir eða eftir til að lágmarka líkurnar á að smit berist milli landshluta. „Að það fólk hugsi fyrir því og reyni að passa sig extra vel, áður en það fer og líka eftir að það kemur. Reyna að ná sjö dögum þar sem það eru minnst samskipti við aðra.“

Óttast nýja bylgju í kjölfar jólanna

Núverandi aðgerðir gilda fram yfir áramót. „Það sem við óttumst mest er að það fari af stað ný bylgja. Þegar fólk er að hittast svona mikið er óhjákvæmilegt að eitthvað fari af stað. Við erum bara mjög hrædd um það að við séum að sjá nýja bylgju fara af stað í kjölfar jólanna og við þurfum að fara að eiga við hana í janúar á sama tíma og við erum að undirbúa bólusetningar og móttöku bóluefnis.“

Flestir sem fréttastofa tók tali í dag tóku vel í að þurfa að fækka boðum um jólin. „Við setjum aðeins smá skorður, gæti verið fleiri en það eru bara tíu. Við fylgjum því,“ segir Jón Sigurðsson.

Hvernig leggst í þig að halda jól í tíu manna samkomutakmörkunum? „Það er bara að sleppa öllum jólaboðum. Vera bara heima. Sleppa laufabrauðsbakstri og öllum samverum. Ég hef ekki einu sinni verið að hitta öll systkini mín,“ segir Emilía Svavarsdóttir. Hvernig finnst þér það? „Mér finnst það mjög leiðinlegt og erfitt.“

„Fjölskyldan hefur aðeins þurft að ræða hvar og hvenær fólk mun koma saman, skipta þessu eitthvað aðeins niður,“ segir Ástþór Ágústsson.