Henry Alexander Henrysson heimspekingur segir að afsökunarbeiðnir fyrir orð eða gjörðir fortíðar séu vandmeðfarnar en mikilvægar. Fjölskylda breska rithöfundarins Roald Dahls hefur beðist afsökunar á ummælum um gyðinga í viðtali fyrir nærri fjórum áratugum.
Ummælin lét Dahl falla í viðtali við breska tímaritið New Statesman árið 1983 en hann lést sjö árum síðar. Orð hans þar um gyðinga hafa lengi varpað skugga á arfleifð hans sem eins vinsælasta barnabókahöfundar 20. aldar.
Henry segir að afsökunarbeiðni sé í grunninn milli tveggja einstaklinga en dæmi sem þetta séu flóknari í sniðum. „Hópur að biðjast afsökunar eins og í þessu dæmi vegna orða látins manns, þá flækist þetta náttúrlega gríðarlega.“
Afsökunarbeiðnir eru eitt af lykilatriðunum í siðferðislífi okkar, segir Henry. Illa væri komið ef fólk hefði ekki möguleika á að biðjast afsökunar. Afsökunarbeiðnir séu mikið í umræðunni og þær komi úr mörgum áttum, frá fyrirtækjum, stjórnmálamönnum og fleirum. Oft fylgi slíkum afsökunum „en“ og velta megi fyrir sér einlægni margra slíkra.
Að sögn Henrys þarf afsökunarbeiðni að innihalda þrjá þætti, viðurkenningu á að eitthvað hafi átt sér stað, viðurkenningu á að eitthvað sem var sagt eða gert hafi ekki verið við hæfi og að lokum eftirsjá.
Henry segir að tilgangurinn með afsökunarbeiðni fjölskyldu Dahls sé að láta koma fram að viðhorf rithöfundarins endurspegli ekki afstöðu fjölskyldu hans eða útgáfufyrirtækisins. Það sé ekkert óeðlilegt við slíkar afsökunarbeiðnir en fólk efist stundum um einlægnina sem liggur þar að baki.
„Í þessu tilviki, sem við erum að ræða hérna í sambandi við Roald Dahl, þá er engin spurning um að hann er látinn, hvað hann sagði liggur fyrir og fjölskyldan er í raun og veru kannski að segja að svona viðhorf séu ekki liðin innan fjölskyldunnar, fyrirtækisins eða í útgáfu efnis frá þessu útgáfufyrirtæki, og að viðurkenna að svona gerist ekki aftur.“
En hvers vegna að biðjast afsökunar á ummælum sem látin manneskja lét falla fyrir löngu síðan?
„Það skiptir oft svo gríðarlega miklu máli að einhver viðurkenni að eitthvað hafi átt sér stað og það sé þá einhver hópur sem telur sig talsmann, eða einhver sem ber einhverja siðferðilega ábyrgð á orðum eða aðgerðum, viðurkenni það. Ég held að þetta sé mikilvægt og ég held að það sé oft gott að þetta komi fram.“
Hlusta má á viðtal við Henry Alexander Henrysson í spilaranum hér að ofan.