ÍSÍ hefur fengið undanþágu til að leyfa afreksíþróttafólki sem undirbýr sig fyrir keppni á alþjóðlegum mótum að æfa. Enn er þó bið eftir því að aðrir fullorðnir og ungmenni fái að æfa.
Sóttvarnalæknir var spurður í dag út í æfinga- og keppnisbann íþróttafólks á Íslandi sem staðið hefur yfir í á annan mánuð.
„Það er nánast öll starfsemi í landinu takmörkuð. Það er, atvinna fólks er í uppnámi, það eru skólarnir, miklar takmarkanir í gangi, það er sundið, það er líkamsræktin, nefndu það. Þannig að íþróttastarfið er ekkert undanþegið því,“ sagði Þórólfur.
Málið var rætt á Alþingi í dag.
„Það virðist því miður vera sáralítill skilningur á stöðu þessa fólks í ríkisstjórnarflokkunum, sem setur þau á sama stað og iðkun almennings,“ sagði Helga Vala Helgadóttir á Alþingi í dag.
Forseti ÍSÍ segir málið þokast í rétta átt.
„Við áttum fund með sóttvarnalækni og Almannavörnum í hádeginu í dag, þar sem þessir hlutir voru ræddir, og við lögðum einmitt áherslu á þessi atriði, að auðvitað koma æfingum eldri hlutans í gang og keppni, þó að það verði eitthvað seinna, og síðan ekki hvað síst sko ef það tekst ekki þá verður eiginlega að reyna að ná til þessara krakka sem eru þarna á þessum framhaldsskólaaldri. Ég tel að það sé mjög mikilvægt og geri alveg ráð fyrir því og veit að sóttvarnayfirvöld eru jákvæð fyrir því að reyna eins og hægt er,“ segir Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ.
ÍSÍ er þó komið með undanþágu til æfinga fyrir afreksfólk sem undirbýr sig fyrir alþjóðleg mót.
„Þannig að við gerum ráð fyrir því að flest okkar afreksfólk, sem er að keppa í einstaklingsgreinum til að mynda, komist þar inn, og líka geri ég ráð fyrir því að það eru hérna til dæmis veit ég nokkrir einstaklingar sem eru í þessum stóra hópi hjá HSÍ og þeir ættu að geta fengið þessa undanþágu líka. Þannig að það er, hérna, þetta er alla vega viðleitni og er bara jákvætt að geta komið þessu áfram. En hins vegar náttúrulega eru menn að horfa til þess að þessar liðsíþróttir, að menn geti stundað þær hérna til að geta verið samkeppnishæfir á alþjóðlegum mótum á næsta ári. En það er, hérna, vonandi styttist í að það verði hægt.“