Jón Þór Hauksson, þjálfari kvennalandsliðsins í fótbolta, var að vonum sáttur með sigur Íslands á Ungverjalandi í dag. Ísland vann báða leiki sína í þessum landsleikjaglugga og er nú mögulega búið að tryggja sér sæti á EM 2022.

„Við erum bara í skýjunum, í skýjunum með þessi sex stig í þessari ferð. Þrjú stig í þessum leik og enda riðilinn með 19 stig. Það er bara frábær árangur,“ sagði Jón Þór eftir sigurinn í dag.

Eina mark leiksins skoraði Berglind Björg Þorvaldsdóttir á 64. mínútu en markið var einkar glæsilegt.

„Það var auðvitað geggjað mark sem Begga skoraði. Það þurfti eitthvað sérstakt í þessu til að brjóta ísinn. Berglind skoraði frábært mark og það var það sem réði úrslitum.“

Þessi úrslit í dag þýða að Ísland er í kjörstöðu varðandi það að komast beint á EM 2022. Ísland endar undankeppnina í 2. sæti riðilsins á eftir Svíþjóð en þrjár þjóðir með bestan árangur í þriðja sæti tryggja sig beint á EM og sleppa því við umspil. Eins og sakir standa mun Ísland sleppa við umspil en þetta veltur þó á úrslitum í öðrum leikjum undankeppninnar.

Jón Þór segir það svekkjandi að allir leikirnir í lokaumferðinni hafi ekki verið spilaðir á sama tíma en einhverjum leikjum var frestað vegna kórónuveirufaraldursins.

 „Þetta er mjög sérstakt og bara synd að þetta skuli ekki allt klárast á sama tíma. Líka að þessir leikir sem eru spilaðir í dag séu ekki einu sinni á sama tíma. Það er mjög sérstakt. En það er svo sem ekkert sem við getum gert í því annað en að bíða og sjá hvernig þau úrslit verða. En við getum auðvitað fagnað okkar árangri, 19 stig í þessum riðli er frábær árangur og við auðvitað fögnum því,” segir landsliðsþjálfarinn að lokum.