Friðrik Sigurðsson, frumkvöðull í réttindabaráttu fatlaðs fólks hlaut í dag Kærleikskúluna árið 2020. Hann fékk fyrsta eintak kúlunnar afhent fyrir utan vinnustað sinn. Hulunni verður svipt af kúlunni í Vikunni hjá Gísla Marteini í kvöld. Þá verður einnig tilkynnt hver skapaði kúluna í ár.

Friðrik hefur helgað líf sitt réttindabaráttu fyrir fólk með fötlun. Hann er einn af stofnendum hátíðarinnar List án landamæra og verndari hennar. Hann stóð einnig að stofnun Átaks, félags fólks með þroskahömlun og er heiðursfélagi í samtökunum. Friðrik átti líka hugmyndina að skemmtiþáttunum Með okkar augum. Hann kom einnig að stofnun sendiherra um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Það voru einmitt umsjónarmenn sjónvarpsþáttanna Með okkar augum sem afhendu Friðriki kúluna fyrr í dag eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði.

Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra útnefnir á hverju ári handhafa Kærleikskúlunnar. Kúlan er veitt framúrskarandi fyrirmyndum fyrir störf í þágu fólks með fötlun. Kúlan fer í almenna sölu í byrjun desember og rennur ágóðinn óskiptur til sumarbúðanna í Reykjadal. 

Fyrri listamenn Kærleikskúlunnar eru Erró, Ólafur Elíasson, Rúrí, Gabríela Friðriksdóttir, Eggert Pétursson, Gjörningaklúbburinn, Hreinn Friðfinnsson, Katrín Sigurðardóttir, Yoko Ono, Hrafnhildur Arnardóttir, Ragnar Kjartansson, Davíð Örn Halldórsson, Ragna Róbertsdóttir, Sigurður Árni Sigurðsson, Egill Sæbjörnsson, Elín Hansdóttir og Ólöf Nordal.