„Ég er auðvitað hæst ánægður með sigurinn og stigin þrjú. En við vitum það auðvitað sjálf að fyrri hálfleikurinn var ekki boðlegur. Hann var sá lélegasti held ég síðan ég tók við þessu liði, hvað varðar allt,“ sagði Jón Þór Hauksson landsliðsþjálfari Íslands eftir 3-1 sigur íslenska kvennalandsliðsins á Slóvakíu í undankeppni EM í fótbolta í Senec í Slóvakíu í kvöld.

Slóvakar komust í 1-0 í fyrri hálfleik, en íslenska liðið var heillum horfið í hálfleiknum. Í seinni hálfleiknum var mun meiri kraftur og barátta í íslenska liðinu. Berglind Björg Þorvaldsdóttir jafnaði metin á 61. mínútu eftir góða sókn Íslands og Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði svo tvö mörk úr vítaspyrnum og Ísland vann því leikinn 3-1.

„Seinni hálfleikurinn var vel spilaður og bara þvílíkur karakter í þessu liði. Munurinn, baráttan og spilið var allt annað í seinni hálfleik en það var í þeim fyrri. Við kláruðum þennan leik frábærlega sem er þvílíkur karaktersigur,“ sagði Jón Þór eftir leikinn í kvöld.

„Það sem ég tek jákvætt út úr þessum leik er þessi endurkoma. Hvernig við komum til baka inn í þennan leik og ná að snúa þessu svona rækilega við,“ sagði Jón Þór, en Ísland mætir Ungverjalandi í lokaleik sínum í undankeppni EM ytra á þriðjudag. Með sigri þar gæti Ísland tryggt sér sæti inn í lokakeppni EM sem haldin verður í Englandi sumarið 2022. Það yrði þá fjórða Evrópumótið í röð sem íslenska kvennalandsliðið kæmist á.