Ríkissáttasemjari segir að staðan í kjaraviðræðum flugvirkja og ríkisins sé grafalvarleg og þung.
„Staðan í þessum viðræðum er grafalvarleg og viðræðurnar eru þungar og erfiðar. Ég var búinn að vera í þéttu sambandi við formenn beggja samninganefnda og fannst ástæða til að við hittumst öll í einu herbergi því þetta vinnst ekki nema við vinnum öll saman og finnum lausnir. Þetta er mjög þung og snúin deila.“ segir Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari.
Hann segir að allir finni fyrir þeirri þungu ábyrgð sem hvílir á viðræðunum og hversu mikið er undir þar sem engin þyrla er tiltæk vegna viðhalds sem ekki er hægt að sinna á meðan á verkfallinu stendur.
„Staðan er þannig að hver dagur skiptir máli. Við höldum áfram strax klukkan níu í fyrramálið. Og ég verð að vona að okkur verði eitthvað ágengt, en eins og ég segi, staðan er grafalvarleg og þung. Það verður setið við eins lengi og það ber árangur, svo sjáum við til með framhaldið.“ sagði Aðalsteinn í beinni útsendingu í fréttum.