Flugvirkjar Landhelgisgæslunnar leggjast eindregið gegn því að slitið verði á tengsl þeirra samnings við aðalsamning Flugvirkjafélagsins við Icelandair. Þeir óttast meðal annars að verkfallsrétturinn verði tekinn af þeim og að þeir dragist aftur úr í launum.
Engin þyrla
Á miðnætti í kvöld verður Landhelgisgæslan ekki með neina tiltæka þyrlu í að minnsta kosti tvo daga. Eina þyrlan sem hefur verið til taks frá því að verkfallið hófst þarf að fara í lögbundið viðhald sem tekur að minnsta kosti tvo daga. Úr því sem komið er breytir það engu þó flugvirkjar aflýsi verkfalli núna eða að lög verði sett á verkfallið. Landhelgisgæslan verður alltaf án þyrlu í einhverja daga nema hún leiti út fyrir landsteinan
Spilmenn fara í viðhaldið
Gæslan er með þrjár þyrlur. TF Líf, Gró og Eir. Hvorki Líf né Eir hafa verið hreyfðar frá því að verkfallið hófst á miðnætti 5. nóvember. Líf hefur verið í langtímaviðhaldi. Hún mun reyndar ekki sinna fleiri verkefnum fyrir gæsluna því ákveðið hefur verið að selja hana til útlanda. Til stendur að leigja aðra þyrlu, TF Gná í janúar sem kemur í stað TF Líf. TF Eir var komin í viðhald þegar verkfallið skall á og þess vegna hefur ekki verið unnið við það. Flugvirkjar sem eru í verkfalli hefðu átt að sinna því. Hún er því búin að vera óhreyfð í nokkurn tíma og það fer ekki vel með þyrlur. Vegna þess mun viðhaldið taka lengri tíma en ella og ekki búist við að Eir komist í loftið fyrr en um jólin þó að kjaradeilan leysist á næstu dögum.
Frá því að verkfallið hófst hefur TF Gró sinnt verkefnum Landhelgisgæslunnar. Hún þarf að fara í viðhald. Spilmenn sem eru jafnframt flugvirkjar geta sinnt þessu viðhaldi og munu gera. Þeir eru í félagi flugvirkja en eru undanþegnir verkfalli vegna þess að þeir teljast hluti af áhöfn þyrlnanna. Í verkfalli sinna þeir því neyðarþjónustu. Átta spilmenn starfa hjá Landhelgisgæslunni.
Mikill meirihluti fyrir verkfalli
Kjarasamningur flugvirkja hjá gæslunni rann út um síðustu áramót og viðræður hafa staðið yfir frá því í febrúar. Mikill meirihluti flugvirkja Landhelgisgæslunnar samþykkti að boða til verkfalls.16 af 18 flugvirkjum gæslunnar tóku þátt. 14 sögðu já og 2 tóku ekki afstöðu.
Tenging við aðalsamning
En um hvað snýst deilan? Í stuttu máli um að flugvirkjar eru ósáttir við að klippt verður á tengsl kjarasamnings flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni við aðalkjarasamning Flugvirkjafélagsins við SA og Icelandair. Í samningum gæslumanna hefur ávallt verið ákvæði um þessi tengsl. Í kjarasamningi frá 2005 fjallar fyrsta grein samningsins um þetta.
1. grein. Á meðan kjarasamningur Flugvirkjafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins og ITS frá 9. nóvember er í gildi, fer um kaup fyrir flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands samkvæmt honum að öðru leyti en í samningi þessum greinir.
Verulega ósáttir
Guðmundur Úlfar Jónsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands segir að flugvirkjar séu verulega ósáttir við að skorið verði á þessi tengsl. Hann segir að þessi almenni kjarasamningur sé sá samningur sem flugvirkjastörf á Íslandi byggi á og nær allir flugvirkjar á Íslandi fylgi þeim samningi. Hann er ekki sáttur við þann samning sem ríkið býður upp á.
„Aðalkjarasamningur Flugvirkjafélagsins er sniðin að störfum flugvirkja og hann hefur þróast í 50 ár með störfum flugvirkja. Samningurinn sem liggur á borðin af hálfu ríkisins er ekki slíkur samningur. Hann byggir ekki á sömu ákvæðum og greinum sem við þurfum í okkar umhverfi,“ segir Guðmundur.
Guðmundur Úlfar segir að málið snúist um að byggja upp kjarasamning utan um atvinnuumhverfi flugvirkja sem starfa hjá Landhelgisgæslunni. Það geri samningur sem ríkið bjóði upp á ekki.
Samkvæmt öðrum heimildum Spegilsins tryggir tengingin við aðalsamninginn að launaþróun flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni sé í takt við launaþróun flugvirkja hjá Icelandair. Ríkið hafi gefið vilyrði um að svo verði áfram. En óttast flugvirkjar að launaþróunin verði ekki í þessum takti verði tilboð ríkisins samþykkt?
„Jú, það er alveg viðbúið að það geti gerst. Sér í lagi vegna þess að flugvirkjar Landhelgisgæslunnar starfa í þannig umhverfi þar sem þeir þurfa að sinna björgunarstörfum og eru undanskildir verkfallsheimild. Þar af leiðandi hafa þeir takmarkaðri rétt til að sækja sín launakjör en aðrir á launamarkaði. Þess vegna er þessi tenging tilkomin þannig að þeir fylgi því sem er að gerast hjá starfsbræðrum sínum annars staðar.“
Gætu misst verkfallsréttinn
Guðmundur segir að flugvirkjar hjá gæslunni muni búa við mikla óvissu ef tengingin við almennan kjarasamning verið tekin í burtu. En óttast flugvirkjar hjá gæslunni að verkfallsrétturinn verði tekinn af þeim?
„Það er alltaf hætta á því. Átta af þeim átján sem starfa hjá Landhelgisgæslunni eru ekki með verkfallsrétt. Það getur alltaf gerst að það verði sett einhver skýrari lagarammi yfir þá sem starfa þar og þá er hætt við að þeir dragist aftur úr þegar fram liða stundir. “
Snýst ekki um Saga Class
Það hefur verið bent á að flugvirkjar sé ósáttir við að verða af rétti til að fljúga á Saga Class þegar þeir fara til útlanda á vegum Landhelgisgæslunnar. Kveðið er á um þetta í almenna samningnum. Guðmundur segir að deilan snúist ekki um þetta atriði.
„Þetta er ekki stórt mál í okkar augum. Þessir miðar hafa stundum verið nýttir af flugrekendum sem þurfa að senda flugvirkja í björgunarstörf erlendis til að sækja bilaðar flugvélar og koma þeim heim. Þá er þetta gert sérstaklega til þess að koma flugvirkjum sem best nærðum og hvíldum á áfangastað til þess að þeir geti unnið sína vinnu þegar þeir lenda. Gæslan hefur í undantekningartilfellum nýtt sér þennan kost,“ segir Guðmundur Úlfar.
Dómsmálaráðherra hefur viðrað hugmyndir um að lög verði sett á deiluna. Málið var rætt á ríkisstjórnarfundi í gær. Afstaða stjórnvalda er að tryggja verði öryggishlutverk Landhelgisgæslunnar. Eins og áður sagði dugir lagasetning nú ekki til að tryggja að þyrla verði til taks því eina þyrlan sem hefur verið mönnuð fer í viðhald á miðnætti. En hver er afstaða flugvirkja til þess að lög verði sett á deiluna?
„Okkar skoðun á því er auðvitað sú að það er mjög erfitt að ætla bæði að girða fyrir verkfallsrétt manna og að sama skapi koma í veg fyrir að þeir geti samið um sinn eigin kjarasamning.“