Landspítalinn stendur að óbreyttu frammi fyrir fjögurra komma þriggja milljarða hagræðingarkröfu á næsta ári að og hefur óskað eftir að fá að vinna hallann upp á þremur árum. Jafnvel þannig sé ljóst að þjónusta við sjúklinga á eftir að skerðast. Ólafur Darri Andrason, framkvæmdastjóri fjármálasviðs spítalans, segir að hagræðingarkrafan dragi úr slagkrafti spítalans í því að takast á við krefjandi verkefni.
Eldri halli áskorun vegna farsóttarinnar
Rekstrarhalli Landspítala er ekki nýr af nálinni. Í fyrra, áður en faraldurinn braust út, var hann 3,8 milljarðar og spítalinn hafði sett sér það markmið að vinna hann upp með hagræðingaraðgerðum á þremur árum. Til þess dró spítalinn meðal annars saman í yfirstjórn og fækkaði sviðum spítalans.
Forstjóri Landspítalans skilaði heilbrigðisráðuneytinu drögum að fjárhagsáætlun fyrir næsta ár 12. nóvember og fréttastofa hefur fengið skjalið afhent frá ráðuneytinu.
Þar segir að eldri halli skerði mjög getu spítalans til að takast á við þær áskoranir sem fylgja farsóttinni. Fresta hafi þurft hluta af þeim hagræðingaraðgerðum sem átti að grípa til á þessu ári vegna álags á spítalann.
Hallinn eykst
Þess vegna sé reiknað með að afgangur af rekstrinum á þessu ári til að mæta hallanum verði tæplega 1,1 milljarður í stað eins komma sjö milljarða eins og stefnt var að. Þrátt fyrir þetta eykst hallinn á næsta ári.
Þetta skilur eftir halla upp á rúma 2,7 milljarða sem spítalinn áætlar að draga frá fjárveitingum næsta árs, í samræmi við fyrirmæli ráðherra. Miðað við fjárlög næsta árs þýðir þetta að spítalinn hefur 69 milljarða til ráðstöfunar á næsta ári, en þarf rúma 73 samkvæmt áætluninni, miðað við óbreyttan rekstur.
Í fjárhagsáætluninni segir að spítalinn standi að óbreyttu frammi fyrir rúmlega fjögurra komma tveggja milljarða króna hagræðingarkröfu á næsta ári, hálfum milljarði meira en fyrir þetta ár.
1,4 milljarða hagræðing hefur áhrif á þjónustu
Gert hefur verið ráð fyrir að spítalinn fái lengri tíma til að vinna hallann upp, út árið 2022, en forstjóri spítalans segir í áætluninni að erfitt sé að grípa til harkalegra sparnaðaraðgerða á meðan faraldurinn geisar og óskar því eftir að fá að takast á við hallann á næstu þremur árum, til ársins 2023; með því þurfi spítalinn að hagræða um rúmlega 1,4 milljarða á næsta ári. Mat spítalans sé að lengra verði ekki gengið án þess að skerða verulega getu spítalans til að sinna hlutverki sínu sem aðalsjúkrahús landsins.
Samkvæmt áætluninni er áformað að meðal annars sparist 300 milljónir á næsta ári með því að fresta hluta af stærri fasteignaframkvæmdum, samtals 100 milljónir með markvissari rannsóknarbeiðnum og því að breyta kvenlækningadeild í 5 daga deild, 160 milljónir með því að að endurskoða vaktaskipulag lækna og seinka sumarráðningum.
Erfitt að vinna niður biðlista vegna COVID í niðurskurði
Í áætluninni segir að ljóst sé að rúmlega eins komma fjögurra milljarða niðurskurður, sem spítalinn leggur til, muni skerða þjónustu við sjúklinga; þannig takmarkist geta sjúkrahússins - eða gæti jafnvel komið í veg fyrir hægt sé að vinna niður biðlista vegna COVID-19.
Inni í þessum tölum er ekki beinn aukakostnaður í faraldrinum. Spítalinn hefur þegar fengið vilyrði fyrir tæplega milljarðs króna aukaframlagi til að standa straum af honum. Málið hefur ekki verið rætt í ráðuneytinu en fundur með forsvarsmönnum spítalans er fyrirhugaður í byrjun desember.
Hagræðingarkrafan dregur úr slagkrafti spítalans
Ólafur Darri Andrason, framkvæmdastjóri fjármálasviðs spítalans, segir að hagræðingarkrafan dragi úr slagkrafti spítalans í því að takast á við krefjandi verkefni. „Þannig má til dæmis nefna að það hafa orðið til langir biðlistar í COVID- 19 núna á þessu ári, það verður erfitt að takast á við þá. Það verður erfitt að takast á við nýjungar og breytingar og þessi verkefni sem Landspítali er alltaf að takast á við. En við teljum þó að við getum varið grunnþjónustu spítalans og vonandi áfram veitt góða og örugga þjónustu,“ segir hann.
Þið talið um að þetta geti haft áhrif á viðhald húsnæðisins. Hvaða þýðingu hefur það? Það er oft talað um að hús landsspítalans séu börn síns tíma.
„Það er auðvitað þannig með húsakost Landspítalans að hann er barn síns tíma. Við erum með fé til viðhalds en hluti af þeim hagræðingaraðgerðum sem við höfum lagt til við ráðherra er að fresta viðhaldi á næsta ári,“ segir hann.
Geturðu nefnt dæmi um fleiri hluti sem verða skornir niður?
„Við reynum auðvitað að skera niður og hagræða þar sem það kemur minnst við sjúklinga. Við reynum að hagræða í yfirstjórn spítalans, í ýmsum verkefnum sem ekki snúa að daglegri þjónustu við sjúklinga. Þannig að okkar meginmarkmið er að geta veitt sjúklingum góða og örugga þjónustu þrátt fyrir að við þurfum að hagræða,“