Nýjasta bók Steinars Braga, vísindaskáldsagan Truflunin, er hugmyndafræðilega hlaðin ráðgáta segja gagnrýnendur Kiljunnar. „Alveg lygilegt hvað honum tekst og hvað hann einsetur sér að halda þessum boltum á lofti og gera upp þræðina.“

Truflunin er ný skáldsaga frá Steinari Braga. Þetta er vísindaskáldskapur sem gerist í ekki svo fjarlægri framtíð, árið 2034 í miðbæ Reykjavíkur. Heimurinn hefur kvíslast í tvær víddir sem einungis snertast á litlu svæði um og í kringum Skólavörðuholt. Staðurinn gengur undir nafninu Truflunin og þangað eru sendir útsendarar úr umheiminum til þess að rannsaka fyrirbærið. Í sögunni er sagt frá Höllu, félagssálfræðingi, sem er send þar inn til að grennslast fyrir um dularfullt hvarf eins útsendarans, sem gengur undir nafninu F.

„Þetta verður Steinari alveg rosalegt fóður í bæði mjög spennandi trylli, svona ráðgátusögu, og líka hugleiðingar um grundvallarspurningar,“ segir Þorgeir Tryggvason. „Um skammtafræði, um heimsfræði, um frumspeki, um sólipsisma og svo þessa grundvallarparanoju aldarinnar, gervigreind og „big data“.“

Hann segir Steinar Braga hafa góð tök á þeim ólíku boltum sem fleygt er upp í bókinni og hann geri upp alla þræði lygilega vel. „Mögulega eru í því einhverjar sjónhverfingar, um hvernig þetta allt saman gengur á endanum upp, en það gerir það ... Mér finnst þetta feikilega vel heppnað. Blade Runner kemur upp í hugann. Svona bara af áhrifamætti fyrir utan allt annað.“

Sunna Dís Másdóttir segir að höfundareinkenni Steinars Braga blasi við í hvívetna. „Hvernig hann teiknar upp þennan heim sem er annar en samt okkar. Mér finnst hann miðla þessari undirliggjandi og óræðu ógn svo vel í gegnum Höllu. Þegar hún stígur inn í Truflunina þá fáum við að vita einmitt að það eru mjög litlar lífslíkur í raun fyrir fólkið sem fer þarna inn og einbeitingin riðlast og öll skynjun verður svolítið bjöguð. Hann miðlar því svo eiginlega næstum því óþægilega vel. Þannig að sem lesandi ertu líka hálf ringlaður og bjagaður.“

Þrátt fyrir að sagan sé hugmyndafræðilega hlaðin missir Steinar ekki tökin á lesandanum segir Sunna. „Hann teymir mann alveg áfram í gegnum þetta þó ég sé ekki heldur alveg fullviss um að ég hafi skilið þetta alveg út í ystu æsar í lokin. En þegar ég lokaði bókinni fann ég að mig langaði nánast að fara að fletta til baka til þess að athuga hvernig hann platar okkur eða teymir okkur áfram í gegnum þetta.“