Deildarstjóri greiningar hjá Íslandsbanka segir að leikur Íslands og Ungverjalands um sæti á EM á fimmtudaginn sé sá dýrmætasti í sögu íslenskrar knattspyrnu. Á næstu vikum geta þrjú landslið Íslands tryggt sér sæti á stórmóti.
Karlalandsliðið, kvennalandsliðið og U21 árs karlalið Íslands eiga öll möguleika á að tryggja sér farseðil á stórmót á næstu vikum. Gífurlegar fjárhæðir eru í spilunum hjá Evrópska knattspyrnusambandinu UEFA þegar kemur að Evrópumóti A-landsliða karla. KSÍ gæti fengið allt að einn og hálfan milljarð vinni Ísland Ungverjaland í vikunni.
Björn Berg Gunnarsson deildarstjóri greiningar hjá Íslandsbanka segir leikinn gegn Ungverjum í vikunni þann verðmætasta í sögu íslenskrar knattspyrnu.
„Það er ekki bara vegna þess hve háar fjárhæðir eru í boði, um einn og hálfur milljarður íslenskra króna, heldur er það mikilvægi þeirra peninga fyrir íslenska knattspyrnu í dag. Ég hugsa að forsvarsmenn íslenskra liða muni fylgjast vel með þessum leik,“ sagði Björn Berg í samtali við RÚV í dag.
„Nú mun reyna á pólitíkina í fótboltanum því þetta er mjög sterk hagsmunabarátta. Það eru hagsmunir félaganna sjálfra, sjálstæði þeirra að fá greidda beina peninga frá knattspyrnusambandinu. Svo erum við með hagsmuni leikmanna, munu leikmenn krefjast þess að fá stóran skerf í formi bónusa? Verður hægt að höfða til þeirra og draga úr þeirra kröfum til að bjarga félögum hérna heima eins og gert hefur verið út í heimi?“
Samkvæmt upplýsingum frá KSÍ liggur það ekki fyrir hvað sambandið fær ef kvennalandsliðið kemst á EM, eða U21 lið Íslands. Síðast þegar íslenska kvennalandsliðið fór á EM, árið 2017, var kostnaður KSÍ meiri en hagnaður.
„Það gæti verið að breytast varðandi peninga í kvennafótbolta. Nú gætu verið meiri peningar í boði, ef við tökum sem dæmi síðustu tvö stórmót karla og kvenna fengust tvöfalt meiri peningar að gera eitt jafntefli á EM karla og að tryggja sér þátttökurétt á EM kvenna.“
Erfitt er að segja til um hverskonar upphæð sé að ræða tryggji öll þrjú liðin sér sæti á EM. Fleira þurfi að taka inn í dæmið en einungis greiðslu fyrir sætið á mótinu.
„Þá getum við reiknað með því að vel norðan við 90% af því komi í gegnum karlalandsliðið, það verða hugsanlega einhverjir tugir milljóna sem fást gegn því að kvennaliðið og undir 21 árs liðið komist á stórmót.“
Nánar er rætt við Björn Berg í spilaranum hér fyrir ofan.