Nýtt íslenskt smáforrit, Embla, sem svarar spurningum á íslensku er væntanlegt í snjallsíma. Einn hönnuðanna segir fólk vilja geta talað við tækin sín á íslensku.
Embla talar íslensku og hún veit ansi margt. Hún þekkir til dæmis opnunartíma verslana, skipulag strætó, þekkir fólk og fyrirbæri, svo getur hún reiknað einföld reikningsdæmi.
Getur Embla svarað hverju sem er? „Nei í rauninni ekki, hin forritin geta það ekki heldur. Siri googlar en Embla getur flett upp í Wikipediu,“ segir Katla Ásgeirsdóttir, markaðsfulltrúi Miðeindar.
Embla hefur verið í þróun í tæpt eitt og hálft ár og á næstu dögum verður hægt að nálgast appið í App og Play store fyrir Iphone og Android síma.
Fyrirtækið Miðeind þróar máltæknibúnaðinn Greyni undir máltækniáætlun stjórnvalda. Embla byggir á sama grunni. Talið er mikilvægt að færa íslensku á svið máltækninnar, til að hægt sé að nota hana á öllum sviðum upplýsingatækni. „Það er bara krafa um þetta, fólk talar miklu meira við tækin sín og vill geta talað við tækin sín. Börn gera þetta rosalega mikið, tala við tölvur og síma. Þá talar fólk ensku eða önnur tungumál af því það hefur ekki verið í boði að nota íslensku. Svona tæki á almennum markaði er mikilvægt fyrir okkur og ekki seinna vænna,“ segir Katla jafnframt.