Sjötíu prósent aukning er á sölu á lopa til útlanda eftir að heimsfaraldurinn skall á. Svo virðist sem lopaæði hafi brostið á í Finnlandi, svo mikil er eftirspurnin. Áhugi á lopaprjóni og -hekli hefur líka aukist hér á landi í kófinu.

Það er greinilegt að það láta ekki allir leiðinda veður, COVID og samkomutakmarkanir draga úr sér kjark því sala á lopa hefur aukist og því ljóst að margir hafa tekið upp prjónana. 

Vélarnar hjá Ístex í Mosfellsbæ sem vinna lopaband eru í fullum gangi.

„Þetta er í rauninni mjög skrítið tímabil. Við erum með handprjónabandið. Handprjónarar eru í rauninni á fullu að prjóna innanlands sem erlendis. Útflutningur hefur aukist verulega hjá okkur. Það eru nánast að fara einn eða tveir fjörutíu feta gámar af handprjónabandi í viku hjá okkur,“ segir Sigurður Sævar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ístex. 

Lopaútflutningur hefur aukist um sjötíu prósent. „Við erum ekki að hafa undan í framleiðslu,“ segir Sigurður. 

Því hefur verið ráðinn aukinn mannskapur sem vinnur á kvöldvöktum. Til þess að anna eftirspurn þarf að auka framleiðsluna um hundrað tonn og ætti það að takast á næsta ári. Sérstakur áhugi er í Finnlandi á lopanum og íslenskum lopapeysuuppskriftum. Svo mikill er lopaáhuginn að hannyrðafólk finnur oft ekki ákveðna liti í lopanum og fyrirspurnum rignir yfir Ístex.

„Þetta eru ekki bara Íslendingar heldur líka Finnar, Norðmenn, Svíar og Þjóðverjar sem eru með sömu spurningar,“ segir Sigurður.