Að minnsta kosti 50 milljón birkifræ söfnuðust í söfnunarátaki sem hófst í haust. Framkvæmdastjóri Skógræktar Kópavogs segir að söfnunin hafi farið fram úr björtustu vonum. Hann segir stefnt að því að halda átakinu áfram á næstu árum.
„Það sem við horfum á hérna fyrir aftan mig er birkifræ. Þetta er afraksturinn af höfuðborgarsvæðinu í átaki um söfnun birkifræja,“ segir Kristinn H. Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Kópavogs. Fréttastofa hitti Kristin í höfuðstöðvum félagsins, en þar var búið að koma fyrir stórri hrúgu af birkifræjum sem hafði að geyma alls 30 milljón fræ.
Komið til að vera
Söfnunarátakið var samstarf Skógræktarinnar og Landgræðslunnar, sem gekk út á að óska eftir stuðningi landsmanna við að breiða út birkiskóga landsins. Fólk gat fengið þar til gerð box til að safna fræjunum í, og gat svo skilað þeim í sérmerktar tunnur. Á landsvísu söfnuðust að minnsta kosti 50 milljón fræ.
Áttuð þið von á að fá svona mikið af fræjum?
„Nei, alls ekki. Þetta fór fram úr öllum vonum. Fólk var mjög duglegt og það var greinilegt að það var safnað mjög víða,“ segir Kristinn. „Þetta voru fjölskyldur sem voru að safna, alveg greinilega. Börn og aðrir. Síðan fórum við og sáðum þessu, meðal annars í Selfjalli fyrir ofan Lækjarbotna. Þar kom fjöldinn allur til að sá og þar komu gjarnan fjölskyldur saman.“
Haugnum stóra í húsakynnum Skógræktarinnar verður dreift um höfuðborgarsvæðið og sáð þar, en hluta verður sáð í vor og Kristinn vonast til þess að skólabörn geti tekið þátt í því verkefni.
„En nú erum við að stefna að því að vera með átak til fjölmargra ára.“
Þannig að það verður framhald á þessu?
„Já já. Það verður alveg klárlega framhald,“ segir Kristinn.