Það kæmi ekkert á óvart þó Donald Trump myndi gefa kost á sér í forsetakosningunum í Bandaríkjunum eftir fjögur ár, fari svo að hann tapi kosningunum nú. Þetta er mat Friðjóns Friðjónssonar, almannatengils og áhugamanns um bandarísk stjórnmál.
Friðjón fór yfir stöðu mála í Kastljósi í kvöld og var þá meðal annars spurður að því hvort Trump gæti gefið kost á sér á ný eftir fjögur ár. Friðjón sagði það mjög líklegt, ef hann hefur heilsu til. Og ef ekki hann, þá sonur hans.
Leið Trumps til sigur nú virðist torfær, en hávær mótmæli stuðningsmanna hans boða víðtækt kosningasvindls af hálfu Demókrata. Friðjón sagði að það væri leið til þess að grafa undan forsetatíð Joes Bidens, að hann hafi ekki verið réttkjörinn forseti fari kosningarnar honum í vil.
Pennsylvanía stefnir á að skila úrslitum sínum í kvöld eða nótt, nema þeim atkvæðum sem berast eftir kjördag og tekið verður við. Friðjón sagði að ef Biden vinni sigur þar þá væru úrslitin ráðast. Einnig er von á tölum frá Georgíu á næstu klukkustundum.
Hér má sjá Kastljósþátt kvöldsins í heild sinni og áfram er svo fylgst með stöðunni á kosningavakt fréttastofunnar.