Heilbrigðisráðherra verður falið að tryggja að konum sem ferðast hingað til lands til að gangast undir þungunarrof fái viðeigandi heilbrigðisþjónustu, verði tillaga Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, óháðs þingmanns, samþykkt. Hún vill að þingið taki afstöðu með réttindum kvenna í Evrópu og sýni það í verki.
Einungis er heimilt að rjúfa þungun í Póllandi ef kona verður barnshafandi eftir nauðgun eða líf hennar er í hættu, samkvæmt nýjum lögum sem stjórnlagadómstóll landsins hefur samþykkt. Lögunum hefur verið harðlega mótmælt.
„Mér finnst gríðarlega mikilvægt að Alþingi Íslendinga taki afstöðu með kvenréttindum kvenna í Evrópu og sýni það líka í verki og með aðgerðum að við viljum standa með mannréttindum og kvenréttindum. Og taka líka afstöðu og gefa skýr skilaboð hingað heim í samfélag þeirra sem koma frá Póllandi.“
Verði tillagan samþykkt verður aðgerðin gjaldfrjáls og í boði fyrir konur sem mega ekki gangast undir þungunarrofi í heimalandi sínu og geta framvísaðEvrópska sjúkratryggingakortinu.
Rósa Björk mælir fyrir tillögunni í vikunni og býst við góðum stuðningi. Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, vakti máls á tillögunni á opnum fundi velferðarnefndar í morgun þar sem staðan á Landspítalanum var til umræðu.
„Er það í takti við áhyggjur okkar af heilbrigðiskerfinu að hér leggja átján þingmenn til í þingsályktunartillögu að konur í Póllandi sem mega ekki undirgangast þungunarrof í heimalandi sínu geti komið hingað til Íslands og notið heilbrigðisþjónustu hér. Ráðum við við slíka þjónustu?,“ spurði Ásmundur.
Rósa Björk gerir ekki ráð fyrir auknu álagi á heilbrigðiskerfið eða miklum kostnaði og segir viðbrögð heilbrigðisstarfsfólks hafa verið jákvæð.
„Það á ekki að vera mikill kostnaður við þetta þar sem að þetta nær yfir tvö lönd, íbúa tveggja landa í Evrópu, Pólland og Möltu. Þó svo að við séum að gefa þessi skýru skilaboð til pólskra kvenna að þá eiga þær hægara um vik að fara til nágrannaríkjanna heldur en hingað til okkar. “
- Og heldurðu að okkar heilbrigðiskerfi ráði við þetta?
„Það held ég.“