Jón Kolbeinn Jónsson, héraðsdýralæknir á Norðurlandi vestra, segist telja að mögulega megi rekja riðusmit í fé í Skagafirði til gamalla urðunarstaða sem hafi tekið við sýktum gripum. Riðusmitefni geti nefnilega lifað í áratugi.
„Ég hef grun um að svo sé í þessu tilfelli, að þetta séu syndir forfeðra okkar sem koma þarna upp á yfirborðið við enduræktun eða framræktun á túnum,“ segir hann. Þá hafi gras eða kál komist í snertingu við sýktan jarðveg og þaðan borist í gripina.
Lóga þarf meira en 2000 kindum í Skagafirði vegna þess að þar hefur fundist riða. Jón Kolbeinn segir ljóst að mikil vinna sé framundan og enn sé ekki komið í ljós hversu útbreitt smitið sé. Strax sé þó ljóst að um töluverðan fjölda sé að ræða sem þurfi að lóga og farga. Mikill tími fer nú í smitrakningu. Það er flókið verk því fara þurfi jafnvel nokkur ár aftur í tímann.
„Riða er hæggengur sjúkdómur, frá því að smit berst í gripi og þar til þeir sýna einkenni, í flestum tilfellum eru það tvö til fimm ár sem það tekur,“ bendir Jón Kolbeinn á.
Víðtækt hreinsunarstarf sé svo framundan og í mörg horn að líta. Allar þær aðgerðir sem gripið er til þurfi að vera vandlega útfærðar. „Öll mistök í svona eru dýrkeypt og dýr. Það kæmi í bakið á manni eftir nokkur ár.“
Jón Kolbeinn hugsar til framtíðar, og ekki að ástæðulausu; hann telur að smitin nú séu úr fortíðinni, þar sem ekki hafi verið gengið nægilega vel frá málum. Hann bendir á að víða um land séu urðunarstaðir sem hafi tekið við mögulega sýktum gripum.
„Þeir urðunarstaðir eru því orðnir sýkt svæði og ættu aldrei að koma til álita að hreyft væri við þeim svæðum þó urðunarstöðum sé lokað. Þó að lögin á Íslandi séu þannig að Umhverfisstofnun eigi að vakta þessa staði í 30 ár þá er það alltof alltof stuttur tími miðað við liftíma riðusmitefnisins, það eru dæmi um að það lifi í alveg tugi ára og ég hef grun um að svo sé í þessu tilfelli, að þetta séu syndir forfeðra okkar sem koma þarna upp á yfirborðið við enduræktun eða framræktun á túnum.“
Jón Kolbeinn ræddi við Þórhildi Ólafsdóttur í Samfélaginu á Rás 1. Hlusta má á viðtalið í spilaranum hér að ofan.