Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að svo virðist sem veiruafbrigðið sem greindist fyrst í tveimur frönskum ferðamönnum um miðjan ágúst sé óvanalega smitandi. Það hafi til að mynda ekki greinst á Bretlandi fyrir fjórum til fimm vikum en sé nú 70 prósent allra tilvika. „Þetta hefur ekki verið sannað en hún virðist vera meira smitandi.“

Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld. Kári sagði jafnframt að það væri „pínulítill vottur“ um að smitin sem hefðu verið að koma frá Póllandi væru farin að leka út í landið en þetta væru mjög lítil dæmi. 

Hann tók undir með sóttvarnalækni um að nauðsynlegt væri að herða aðgerðir nú en smitum hefur fjölgað hratt á ný eftir hópsýkingu á Landakoti. „Og ekki seinna vænna,“ sagði Kári sem taldi að það hefði verið skynsamlegra að herða aðgerðir töluvert meira strax 18. september þegar hópsýkingar komu upp á öldurhúsum í Reykjavík. „Við eigum að bregðast við hart og reyna að slökkva á þessu fljótt.“ Hann væri jafnframt þeirrar skoðunar að aðgerðirnar ættu að taka gildi fyrir helgi en ekki eftir eins og hefur verið boðað.

Kári sagði að ekki sæi högg á vatni miðað við núverandi aðgerðir. Hann hefði þó fullan skilning á því að sóttvarnalæknir þyrfti að virða allskonar hagsmuni í starfi sínu. Það væri sennilega aðalástæðan fyrir því að hann hefði ekki farið fram á harðari aðgerðir í september.  „Við verðum að fara gefa töluvert í til að geta farið að njóta þess að lifa í landi þar sem engin ný sýking er að koma inn.“ Núna værum við í hálfgerðu hálfkáki þar sem við mættum fátt og ekkert bendi til þess að það væri að fara að breytast.

Kári taldi jafnframt að rök væru fyrir því að loka skólum þótt börn væru síður líkleg til að smitast. „Þau sýkjast samt og sýkja aðra.“ Skynsamlegast væri að hólfaskipta skóla þannig hægt að væri að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu veirunnar.