Gestir Lestarklefans eru sammála um að fyrsta plata Bríetar sé góð og úthugsuð plata. Egill Bjarnason segist lengi ekki hafa greint jafn mikla hæfileika í textasmíð á íslensku. Kristín Jónsdóttir er hugfangin og Þórdís Nadia Semichat er hrifin þó hún hefði viljað sjá Bríeti ganga lengra í að berskjalda tilfinningar sem fylgja sambandsslitum og jafnvel vanda sínum fyrrverandi kveðjurnar enn síður.

Fyrsta breiðskífa hinnar 21 árs Bríetar Ísisar Elfar nefnist einfaldlega Kveðja, Bríet og er hún vinsælasta poppplata á Íslandi um þessar mundir. Bríet hefur notið töluverðra vinsælda hér á landi síðustu ár fyrir lög eins og Ekki vera feiminn, Dino og Esjan. Kveðja, Bríet er níu laga plata sem fjallar að mestu um ástina og sambandsslit og hefur hún slegið algjörlega í gegn. Átta af lögunum níu eru til dæmis á meðal tíu vinsælustu laga landsins samkvæmt vinsældarlista Spotify og hafa lögin setið sem fastast í efstu sætunum síðan platan kom út. Kristín Jónsdóttir, leiðsögumaður, íslenskukennari og þýðandi, Egill Bjarnason blaðamaður og Þórdís Nadia Semichat, dansari, uppistandari og handritshöfundur, hlustuðu á plötuna og ræddu skoðun sína á henni í Lestarklefanum á Rás 1.

Þórdís segir að tónlistarstíllinn höfði ekki beint til sín en hún skilur hvers vegna platan nýtur slíkra vinsælda. „Hún er rosalega aðgengileg og það er auðvelt að hlusta á lögin,“ segir hún. „Mér fannst þetta sæt og einlæg plata sem endurspeglar aldurinn hennar og svo finnst mér Bríet bara rosalega flott. Hún er góð söngkona en líka performer en ég bjóst við því, því ég hef ekki hlustað mikið á hana áður, að þetta væri meira indí-plata út frá hulstrinu.“

Kristín hafði áður hlustað á Bríeti og kynnt hana fyrir nemendum sínum í París sem líkt og kennarinn eru hrifin af laginu um Esjuna. Og Kristín varð ekki fyrir vonbrigðum með plötuna. „Mér finnst allt ganga upp,“ segir hún. Hún segir plötuna góða blöndu af ballöðum, dansi og húmor. „Ég er hugfangin og hef hlustað aftur og aftur.“

Platan fer víða og Bríet virðist sækja innblástur víða í lagasmíðinni, í skandinavíska danstónlist og amerískt kántrí. Egill var ánægður með blönduna. „Þetta er mikill rússíbani sem fer langt upp og langt niður. Hægt að hlusta hvort sem maður er ástfanginn eða í ástarsorg,“ segir Egill. Hann var sérstaklega hrifinn af rólegri lögum plötunnar sem hann hlustaði á þegar hann ýtti á undan sér barnavagni í haustsólinni. „Mér finnst þetta flott verk, óhætt að mæla með því að hlusta á plötuna sem heildarverk. Hún er úthugsuð og gaman að pæla í henni út frá því. Þarna er meira að segja gert hlé þar sem það er blístrað eða flautað í angurværum tón og mér finnst þetta ganga upp.“

Platan er berskjölduð og í henni er verið að takast á við erfiðar tilfinningar. Í lokin á plötunni má heyra Bríeti lýsa því sem hljómar sem raunveruleg sambandsslit án þess að hún syngi en slík einlægni er orðin vinsæl í nútímalist. Þórdís hefði þó kosið að Bríet hefði gengið lengra að því leyti. „Ég persónulega hefði viljað sjá eitthvað meira brútal,“ segir Þórdís. „Hún er svo stór karakter en mér fannst platan aðeins væmin og hefði viljað fá smá pönk inn í þetta.“

Í vinsælasta laginu af nýju plötunni syngur Bríet meðal annars:

En rólegur kúreki
Komdu niður af háa hestinum
Hvernig væri að líta inn á við?
Þú ert ekki einn í heiminum

Hættu að skjóta mig niður
Þú ert ekki James Dean því miður

Þórdís er hrifin af þeim texta og er hún ánægð með að söngkonan ráðleggi kúrekanum að róa sig en hefði viljað heyra meira í þá áttina. „Kannski er ég lituð af Lemonade-plötu Beyonce því þetta er algjör tilfinningarússíbani og hún fer í gegnum allan pakkann, frá afneitun í að verða ógeðslega reið, yfir í að vera sorgmædd og í að komast yfir það,“ segir hún. „Ég hefði verið til í eitt lag sem væri bara: „Þú mátt fokka þér og ég vil aldrei tala við þig aftur.“ Hún er smá að segja það inn á milli en á penan hátt.“ Hún bendir á að kannski fari Bríet pent í þá sálma því samfélagið er lítið og margir viti hver fyrrverandi kærasti hennar er.

Hún tekur fram að lokum að hún sé hrifin af Bríeti sem tónlistarkonu og því eru viðmælendurnir öll sammála. „Textarnir eru fínir margir og mér fannst, því maður heyrir hana flytja þetta á íslensku, að samanburðurinn væri áþreifanlegri. Ég hafði ekki heyrt þetta talent lengi á íslensku,“ segir Egill að lokum. „Spennandi að sjá í hvaða átt hún fer eftir þetta.“

Rætt var um plötuna Kveðja Bríet í Lestarklefanum á Rás 1.