Formenn félaga bæði hjúkrunarfræðinga og og sjúkraliða telja réttlátt að heilbrigðisfólki verði umbunað sérstaklega fyrir störf í návígi við kórunuveiruna, eins og gert var í fyrstu covidbylgjunni. Þá telja sjúkraflutningamenn að þeir eigi rétt á álagsgreiðslum.
Þegar COVID-19 faraldurinn lét til sín taka hér í vor störfuðu margir heilbrigðisstarfsmenn undir talsverðu álagi og voru í miklu návígi við veiruna. Þá var viðurkennt að þeir ættu rétt á umbun fyrir störf sín. Stjórnvöld ákváðu að einum milljarði króna yrði varið til álagsgreiðslna til handa heilbrigðisstarfmönnum.
Greiðsla til einstaklings gat numið allt að 250 þúsund krónum en þær fór eftir álagi og smithættu. 670 milljónir runnu til starfsmanna Landspítalans, 80 milljónir til Sjúkrahússins á Akureyri og sama upphæð til Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. 170 milljónum var svo skipt á milli annarra heilbrigðisstofnana. Greiðslum var til dæmis skipt jafnt milli starfsmanna Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og komu 95 þúsund krónur í hlut hvers starfsmanns. Greiðslurnar náðu til þeirra sem höfðu verið í vinnu í mars og apríl. Þær voru greiddar út í júlí og ágúst.
Mikið álag
Nú hefur álag á heilbrigðisstarfsmenn aukist aftur og því spurning hvort þeir eigi aftur rétt eða kröfu á álagsgreiðslum. Ekki hefur verið lögð fram krafa um slíkt. Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, telur réttlátt að heilbrigðisstarfsmenn fái álagsgreiðslur.
„Já ég er á þeirri skoðun að sjúkraliðar sem eru að leggja á sig þessa gríðarlega miklu vinnu og vinna undir miklu álagi hvern dag sem þeir mæta í vinnu fái það metið að verðleikum og fái umbun fyrir fyrir þá vinnu,“ segir Sandra B. Franks.
Liggur við ómanneskjulegt
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir kröfu um álagsgreiðslur réttmæta.
„Já, ég tel það þó að það sé ekki eitthvað sem við verðum að skoða hér og nú í dag enda erum við að takast á við mjög alvarlega stöðu sem kom upp á síðustu fjórum fimm dögum. Þá er þetta bara annar eins tími og var í vor. Og nú þegar hefur komið fram að fólk eins og starfsfólkið á Landakoti er að vinna í svokallaðri sóttkví B vinnuna sína og fer síðan heim í sóttkví. Eins og kom fram á upplýsingafundinum í morgun þar sem Páll Matthíasson sagði að fólk sé leggja á sig gífurlega mikla vinnu og liggur við ómanneskjulega sem varla er hægt að fara fram á við fólk bara til að koma og sinna störfunum til að halda þjónustunni gangandi þá held ég að það hljóti að koma eftir á að það þurfi eitthvað að huga að slíkum aðgerðum aftur,“ segir Guðbjörg.
Sjúkrafutningamenn fái umbun
Í fyrri bylgjunni fóru bæði lögreglumenn og sjúkraflutningamenn fram á álagsgreiðslur. Ekkert varð úr því. Þeir sjúkraflutningamenn sem starfa hjá ríkinu eða heyra undir heilbrigðisstofnanir fengu reyndar einhverjir álagsgreiðslur en ekki þeir sem starfa hjá sveitarfélögunum.
„Við útdeilingu á þessum álagsgreiðslum þá þykir okkur ekki að það eigi að skipta máli hvort um sé að ræða starfsmenn sem vinna hjá ríkinu eða sveitarfélögum því þetta er sama baráttan. Okkar skoðun er sú að þeir eiga að vera undir sama hatti,“ segir Magnús Smári Smárason, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.