Frá því að fyrsta breiðskífa Bríetar, Kveðja, Bríet, kom út fyrir hálfum mánuði hafa lögin af henni raðað sér í efstu sætin á óobinberum vinsældalista Íslands, Iceland top 50, á streymisveitunni Spotify. Platan kemur í kjölfarið á Esjunni einu allra vinælasta lagi ársins.

Söngkonan Bríet skaust hratt upp á stjörnuhimininn 2018 og hefur haldið áfram að heilla fólk síðan þá. Tónlist hefur alltaf verið hluti af lífi Bríetar sem fór að spila á gítar 12 ára. Þegar hún var 15 ára var hún farin að syngja utan dagskrár á Iceland Airwaves og hefur í raun ekki stoppað síðan.

Kveðja, Bríet er samin og unnin af tónlistarkonunni Bríeti Ísis Elfar og upptökustjóranum Pálma Ragnari Ásgeirssyni. Platan er uppgjör Bríetar við undanfarna mánuði og þær tilfinningar sem fylgja því að missa ástina og inniheldur allan skalann að sögn listakonunnar. Platan var unnin hratt enda hefur Bríet getað einbeitt sér að sköpuninni vegna ástandsins þar sem lítið hefur verið um tónleikahald. Bríeti til halds og traust við gerð plötunnar auk Pálma Ragnars eru; Rubin Pollock, sem pródúseraði Eltum sólina og spilaði á gítar inn á nokkur lög plötunnar, Þorleifur Gaukur Davíðsson spilaði á munnhörpu og stálgítar, Gabríel Ólafs á píanó og Ragnheiður Ingunn á fiðlu.

Kveðja, Bríet er plata vikunnar á Rás 2 og verður spiluð í heild sinni ásamt kynningum Bríetar á tilurð laganna. Hún er á dagskrá eftir tíufréttir í kvöld auk þess að vera aðgengileg í spilara.