Hæfileikinn til þess að umbera fiskifýlu og þykja hún jafnvel góð er langalgengastur hér á landi. Rósa Gísladóttir er á meðal þeirra sem gerður rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar á lyktarskyni. Hún segir að sumir finni ekki ógeðsfýluna sem flestir þekkja af skötu, hákarli eða úldnum fiski og að það séu erfðir sem stjórna því.
Flestum þykir fiskilykt vera sterk og ekki beint góð, við köllum hana jafnvel frekar fýlu en lykt. Þó er til fólk sem finnur enga fiskilykt. Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í tímaritinu Current Biology 8. október og hafa vakið mikla athygli. Til dæmis var skrifað um þær í The New York Times.
Rósa Gísladóttir, vísindakona hjá Íslenskri erfðagreiningu og lektor í málvísindum við Háskóla Íslands, fer fyrir rannsókninni ásamt fleirum. Rósa ræddi við Höllu Harðardóttur í Samfélaginu á Rás 1 um niðurstöðurnar. Hún segir að lyktarrannsóknin sé hluti af stærri heilsurannsókn sem enn stendur yfir.
Eitt af verkefnunum var að þefa af lyktarpennum og svo áttu þátttakendur að segja hve sterk lyktin væri og hve góð þeim þætti hún, reyna að lýsa lyktinni og segja hvaða lykt þetta væri. „Í þessari grein erum við að fjalla um nýjan erfðabreytileika sem við fundum út frá þessari rannsókn,“ segir Rósa.
Appelsína, sítróna eða blóm?
Það er ljóst að fólk skynjar lykt á ólíkan hátt og segir Rósa að þvert á það sem margir hafa haldið sé mannfólk með nokkuð gott lyktaskyn. Hins vegar eigi fólk oft erfitt með að koma því í orð.
„Ef við sjáum til dæmis appelsínu er ekkert mál að segja að það sé appelsína en ef við erum með lokuð augu gætum við sagt sítróna, blómalykt eða eitthvað álíka.“
Þegar fólk eigi hins vegar erfitt með að greina lykt sé það oft vísbending um víðtækara vandamál og getur verið fylgikvilli parkinsonsveiki og þunglyndis. En svo er einstaklingsmunur á skynjun á lykt og það er það sem rannsóknin nær utan um.
„Það er út af þessum erfðabreytileika sem stýrir eða hefur áhrif á lyktina í nefkokinu og valda því að þessir lyktarnemar bindast ekki nógu vel efnum í kringum okkur. Það er spennandi bæði almennt hvort fólk er með lélegt eða gott lyktarskyn en líka þessi einstaklingsmunur hvað varðar einstaka lyktir,“ segir Rósa. „Það er jafnvel þekkt að sumum finnist lyktir vondar og öðrum góðar, þá er það þessi erfðabreytileiki í þessum lyktarnemum sem stýrir því.“
Aðalbreytan í rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar hefur að gera með efni sem er mælikvarði meðal annars á ferskleika fisks. Það eykst eftir því sem fiskurinn úldnar og eldist og er reyndar í ýmsum annars konar úrgangi; blóði og svita sem dæmi.
Áður hafði verið gerð tilraun til að finna þennan erfðabreytileika í mönnum en sú tilraun lukkaðist ekki. „Svo hér erum við að sýna fram á í fyrsta skipti að erfðabreytileiki í þessu geni hefur áhrif á lyktarskyn í mönnum og akkúrat þessa fiskilykt.“
Algengast á Íslandi því það er gagnlegt að vilja skötuna og hákarlinn?
Og það er forvitnilegt að velta fyrir sér ástæðunni fyrir því að þessi erfðabreytileiki er langalgengastur á meðal Íslendinga því 4% landsmanna eru með hann. Næstalgengastur er hann í Svíþjóð en þegar komið er til dæmis til Afríku er tíðnin varla mælanleg.
„Það er freistandi að hugsa um fæðuna því þetta efni finnst til dæmis í töluverðum mæli í harðfiski en það er líka mikið af því í skötu og hákarli,“ segir Rósa.
„Við veltum því upp óbeint í greininni að mögulega hafi einmitt sú staðreynd að þetta efni er algengt í fæðunni haft áhrif. Það er erfitt að segja það með fullri vissu en freistandi að halda að þessi erfðabreytileiki sé algengari á Íslandi vegna þess að hann var gagnlegur. Við þurftum að borða skötuna, hákarlinn og harðfiskinn og þar af leiðandi þjónaði þetta gen ekki bara tilganginum að vernda okkur gegn einhverju heldur kannski var gagnlegt að milda þessa lykt svo við gætum borðað meira.“
Þeir sem eru með þennan erfðabreytileika og finna lykt af skötu eða hákarli til dæmis eru líklegri til að giska ekki á fisk heldur rósalykt eða karmellu. Sumir segja reyndar að það sé fiskilykt en þá er ekki búið að slá út næmið eða milda það.
Mamma vildi alltaf elda skötu
Rósu er jafnvel farið að gruna að móðir hennar sé með þennan erfðabreytileika. „Flestir myndu finna einhverja lykt af fiski en þeim finnst hún ekki jafn vond, og ég man eftir rifrildi á mínu heimili þegar ég var yngri, mamma vildi alltaf elda skötu og við hin vorum ekki mjög hress með þá ákvörðun svo ég hef velt fyrir mér hvort hún sé með þennan erfðabreytileika,“ segir Rósa. „Auðvitað finnur hún lykt en hún er greinilega ekki jafn slæm í hennar nefi en okkar.“
Halla Harðardóttir ræddi við Rósu Gísladóttur í Samfélaginu á Rás 1.