„Það hefur bara gengið vel, það eru mjög margir að kaupa alltaf,“ segja skólabræður í 4. bekk í Stykkishólmi sem einu sinni í viku baka saman til styrktar góðu málefni. 

Það eru þeir Arnar Rafnsson, Jón Dagur Jónson, Þórir Már Kárason, Guðmundur Elías Arnþórsson og Hákon Rúnar Hólmgeirsson sem hittast vikulega og baka snúða. Þeir fengu hugmyndina eftir að hafa bakað kanilsnúða í heimilisfræði. „Við ætluðum fyrst að gera kex því kanilsnúðarnir þeirra voru svo harðir,“ segja þeir en hættu fljótlega við það og héldu sig við snúðana. 

Landinn kíkti til þeirra í baksturinn í vikunni. Þeir eru orðnir vinsælir bakarar í bænum, pöntunum rignir inn og þeir baka um tvö hundruð snúða í hvert sinn. Þeir eru það vinsælir að yfirleitt geta þeir sjálfir ekki borðað nema kannski einn til tvo snúða á mann vegna þess að þeir seljast alltaf upp. „Stundum bíðum við í smá stund og sjáum, stundum er bara pínu eftir og þá mokast inn pantanir. Við ætluðum kannski að borða þetta en þá þurfum við bara að gera meira,“ segja þeir en þeir hjóla svo sjálfir með allar pantanirnar í hús en allur ágóði rennur til styrktar góðu málefni. 

Í Landanum í kvöld klukkan 19.40 kynnumst við þessum framtakssömu bakaradrengjum auk þess skoðum við hörmuni á Bessastöðum, heyrum sögu manns sem hefur gengið yfir 1000 sinnum upp á sama fjallið, reitum arfa með kvenfélagskonum í skrúðgarðinum í Neskaupsstað og hittum hafnsögukonu.