Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir sýnir ný verk í nýju íslensku galleríi í Berlín, Gallerí Guðmundsdóttir, þar sem hún notar heim BDSM-kynlífsleiki sem táknmyndir.

„Ég er að fjalla um sjálfsástina sem líffræðilegt element,“ segir Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir, sem sýnir um þessar mundir í íslensku galleríi í Berlín, Gallerí Guðmundsdóttir. Galleríið er nýtt af nálinni þar í borg, var opnað í sumar og Guðný Guðmundsdóttir rekur það.

Sýning Katrínar, sem er önnur í röðinni í Gallerí Guðmundsdóttir, vakti töluverða athygli þegar hún opnaði í september og sagði einn gagnrýnandi, bæði verkið og rýmið, vera eins og ferskan andblæ þar í borg. 

„Við framköllum ástina innra með okkur en auðvitað eru alls konar hlutir sem geta haft áhrif á hana, en við þurfum að fókusa á þessa ást sem okkur er gefin í vöggugjöf og sem er hluti af okkar DNA. En öll þessi mannlegu kerfi sem við búum til í samfélaginu, uppeldið, skólakerfið og kapítalisminn, þau bombarda á okkur andhvatningu og hvetja okkur ekki til að hugsa um sjálfsástina,“ segir Katrín sem notar BDSM-kynlífsathafnir og bindingar sem táknmyndir. „Mín myndlíking er að bandið er einhvers konar kerfi. Kerfið bindur mig og þrengir að mér en innan í mér getur enginn tekið það frá mér að ég get samt verið frjáls, verið ég.“ 

Katrín var nýkomin úr sóttkví þegar hún tók á móti Víðsjá í Myndhöggvarafélaginu við Nýlendugötu. Hún stóð við eldstæðið, þar sem hún hóf viðtalið á því að fremja gjörning. 

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.