Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona í fótbolta, segist reikna með því að sitja og öskra á sjónvarpið þegar Ísland mætir Svíþjóð í undankeppni EM á þriðjudag. Dagný sem er lykilleikmaður í landsliðinu missir af leiknum vegna meiðsla.
Á meðan liðsfélagar hennar í landsliðinu búa sig undir leikinn mikilvæga gegn Svíþjóð í Gautaborg var Dagný mætt til vinnu sem íþróttakennari á Laugarvatni fyrir helgi. Dagný er meidd og missir af leiknum við Svíþjóð.
Aldrei heyrt um beinbjúg
„Ég lenti í tæklingu á móti Val, það fór leikmaður aftan í hælinn þegar ég var að hlaupa. Þetta var svolítið eins og að fá bolta framan á puttann, ristin á mér kramdist bara. Ég er með beinbjúg í tveimur ökklabeinum og nokkrum ristarbeinum," segir Dagný sem kveðst aldrei hafa heyrt um slíkt mein áður.
„Ég hafði aldrei heyrt um beinbjúg áður, ég viðurkenni það. En þau lýsa þessu svolítið eins og beinmari, bara ekki eins djúpt og þetta er bara ógeðslega erfitt. Það hefði eiginlega verið betra að fá bara sprungu eða fótbrot, þá væru það bara fjórar til sex vikur og ég yrði klár. En það var sagt við mig að ég gæti verið klár eftir þrjár vikur eða fjóra mánuði.
Svo orkumikil að hún getur ekki sofnað
Dagný hefur takmarkað geta hugsað um ungan son sinn eftir meiðslin og hún hvílist illa. „Ég bara get ekki sofnað á kvöldin af því ég er með svo mikla orku og vakna alltaf snemma. Ég hef bara ekki sofið nóg því ég er með svo mikla orku."
Meiðsli Dagnýjar urðu um miðjan september. Þrátt fyrir það spilaði hún báða leikina í síðasta landsliðsglugga; gegn Lettlandi og Svíþjóð, og skoraði þrennu gegn Lettlandi. Eftir landsleikina spilaði hún svo með Selfossi gegn KR og skoraði þar sigurmarkið.
Eitthvað að sársaukaþröskuldinum
Hvernig spilar maður í gegnum svona? „Sko, ég veit það ekki. Ég held að það sé eitthvað að sársaukaþröskuldinum mínum. Ég hef spilað fótbrotin og tábrotin í tveimur leikjum, í þrjá mánuði með sprungu og ég bara veit ekki hvernig ég fer að þessu. Það er náttúrulega adrenalínið líka. Ég tók verkjalyf á leikdegi en svo á meðan held ég bara að ég sé alin upp þannig, að maður eigi bara að harka af sér."
„Ógeðslega erfitt" að geta ekki verið með
Að sitja heima og geta ekki mætt Svíþjóð er afleitt fyrir Dagnýju. Hún hefur þó fulla trú á liðinu. „Sko, mér finnst það ógeðslega erfitt. Það er öðruvísi að vera bara fyrir utan heldur en að vera á bekknum." Við þannig aðstæður gefist þó tækifæri til að hafa áhrif.
„Seinast þegar ég var í þessari stöðu var ég að koma til baka eftir barnsburð. Þá vorum við í efsta sæti í riðlinum að tryggja okkur sæti á HM. Það endaði með því að við komumst ekki einu sinni í umspil. Þó ég hafi fulla trú á stelpunum þá viðurkenni ég að ég er líka stressuð. En við spiluðum vel á móti Svíum og ég hef fulla trú á að stelpurnar munu klára þetta."
Örugglega að fara að tala við sjónvarpið
Hvort sem leikurinn við Svía vinnst eða tapast þarf íslenska liðið að vinna síðustu tvo leikina í riðlinum um mánaðamótin nóvember og desember til að sætið á EM sé tryggt. Dagný stefnir á þá tvo leiki.
Svíþjóð og Ísland mætast á þriðjudaginn í þessum mikilvæga leik er úrslitaleikurinn um efsta sætið í riðlinum. Þá verður Dagný fyrir framan sjónvarpið. „Ég er örugglega að fara að tala við sjónvarpið. Segja stelpunum hvað er vel gert og hvað er ekki vel gert. Tala við sjálfa mig."
Viðtalið við Dagnýju má sjá í spilaranum við þessa frétt.
Leikur Svíþjóðar og Íslands á þriðjudaginn hefst klukkan 17:30 og verður sýndur beint á RÚV.