Allt lék á reiðiskjálfi þegar jarðskjálfti af stærðinni 5,6 reið yfir skammt frá Krýsuvík á Reykjanesskaga eftir hádegi og fannst um allt land. Í verslun Krónunnar köstuðust vörur úr hillum. Grjót hrundi úr hlíðum skammt frá upptökunum og manni sem var að máta górillubúning í miðbæ Reykjavíkur brá töluvert.

Sjá má myndskeið sem sýnir hvernig jarðskjálftinn hafði áhrif á fólk víða á suðvesturlandi í myndskeiðinu hér að ofan.

Í Krónunni úti á Granda urðu þónokkrar skemmdir þegar vörur köstuðust úr hillunum.

„Þetta gerðist mjög snögglega. Við vorum bara í okkar daglegu störfum og skyndilega reið þetta yfir. Manni leið bara eins og maður væri á sjó,“ segir Geir Magnússon, verslunarstjóri.

Það hrundi töluvert mikið úr hillunum hjá ykkur?

„Talsvert. Mjög mikið tjón og við erum búin að þrífa og erum að fara yfir þetta.“

Hvernig varð viðskiptavinunum við?

„Það voru allir voða rólegir. Ég veit ekki hvort fólk var svona lengi að átta sig á því hvað gerðist en þetta gerðist snögglega og fór hratt yfir.“

En það urðu engin slys á fólki?

„Nei sem betur fer,“ segir Geir.