Mörg íslensk fótboltalið hafa sent erlenda leikmenn sína heim, eða munu senda þá úr landi eftir helgi. Dragist Íslandsmótið í fótbolta mikið lengur getur það því sett lið í vanda. Eitt þeirra er lið Vestra frá Ísafirði og Bolungarvík sem leikur í Lengjudeildinni, næstefstu deild karla. Tíu erlendir leikmenn eru á mála hjá Vestra.
„Allir erlendir leikmenn Vestra yfirgefa landið 19. október þar sem mótið átti náttúrulega að klárast 17. október. Við sýnum þó að sjálfsögðu þeim liðum skilning sem hafa að einhverju að keppa. Við erum hólpnir og siglum lygnann sjó í deildinni. En ég geri mér fulla grein fyrir því að þau lið sem eru að berjast á botni og toppi vilji klára mótið,“ sagði Samúel Samúelsson formaður meistaraflokksráðs karla í fótbolta hjá Vestra við RÚV í dag.
„Við munum aldrei fá sanngjarna niðurstöðu í mótið úr því sem komið er. En því verður ekki breytt að okkar leikmenn muni yfirgefa landið 19. október og við verðum mjög fámennir eftir það,“ sagði Samúel. Vestri sækir Magna frá Grenivík heim í næstsíðustu umferðinni. Magni er í harðri fallbaráttu og það gæti því skekkt myndina í deildinni ef Vestri verður ekki með sitt sterkasta lið í slíkum leik, fyrir Þrótt R. og Leikni F. sem eru í fallbaráttunni við Magna.
Græðir enginn á því að spila mönnum úr 3. flokki
Samúel segir að það gæti orðið erfitt að manna lið Vestra í síðustu tveimur umferðum Lengjudeildarinnar verði mótið klárað. „Við eigum í lið fram að mánaðamótum, en hópurinn er ekki stór. Við höfum lánað marga af okkar yngri leikmönnum í 4. deildarliðið hérna sem heitir Hörður. Þannig þeir eru þar að leiðandi bundnir þar. Þannig við getum ekki kallað þá til baka á þessum tímapunkti. Ég sé fyrir mér að við getum spilað þessa leiki ef mótið klárast fyrir mánaðamót. En ef þetta dregst lengur að þá verðum við bara í þeirri stöðu að þurfa að spila mjög ungum leikmönnum. Ég tel að það myndi ekki gera neinum greiða. Hvorki leikmönnunum né þeim sem við mætum að við værum að spila strákum sem væru kannski í 3. flokki.“
„Við náðum að framlengja samningum við tvo erlenda leikmenn fram að mánaðamótum en ekki við fleiri. Við lögðum svosem ekkert gríðarlega mikið kapp á það. Við erum að hugsa um okkur sjálfa í þessu, ég verð nú að viðurkenna það. Við erum hólpnir í deildinni og sjáum ekki neinn tilgang í því að fara að bæta við kostnaði á þetta tímabil,“ sagði Samúel.
Spila síðasta heimaleikinn væntanlega á Dalvík
Vestri á eftir að spila einn heimaleik í Lengjudeildinni og hefur spilað heimaleiki sína utandyra á Ísafirði. En hvernig líst Samúel á það ef mótið dregst enn frekar á langinn og spila þurfi jafnvel einhvern tímann í nóvember?
„Það gæti orðið nokkuð flókið. Það er nú yfirleitt gott veður hérna fyrir vestan. En þegar við erum komin inn í nóvember, jafnvel þó það yrði ekki kominn snjór, heldur bara um leið og það kemur frost í völlinn er hann óleikhæfur. Þannig ég er svosem ekkert mjög bjartsýnn á það að við getum spilað hérna í nóvember.“ Samúel segir að leikurinn við Aftureldingu í lokaumferðinni yrði þá spilaður á gervigrasvellinum á Dalvík.
Allt viðtalið sem Elsa María Guðlaugs Drífudóttir fréttamaður RÚV á vesturlandi og vestfjörðum tók fyrir RÚV íþróttir í dag má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.