Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, telur ekki þörf á að rýmka skilyrðin fyrir nýsamþykkt hlutdeildarlán og segir þau nýtast þeim hópum sem til var ætlast. Sveitarfélög og verktakar verði að bregðast við lánunum með auknu framboði lóða og íbúða.

Ásmundur tók í dag skóflustungu að 65 nýjum íbúðum fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur í Gufunesi í Reykjavík. „Það er ótrúlega ánægjulegt að sjá þetta verkefni, bæði það sem komið er af stað og það sem er að fara af stað, vegna þess að þetta er akkúrat í þeim anda sem ný lög um hlutdeildarlán eru að hvetja til að sé gert,“ segir hann.

Hlutdeildarlán eiga að nýtast tekjulágum einstaklingum við íbúðarkaup en lögin taka gildi næstu mánaðamót. Ströng skilyrði um verð og stærð íbúða hafa vakið upp spurningar um hvort fáar íbúðir falli undir lögin. Ásmundur segir svo ekki vera og segir ekki ástæðu til að rýmka skilyrðin.

„Það sem þarf að gerast er að markaðurinn þarf að bregðast við. Sveitarfélögin, verktakinn og aðrir þurfa að bregðast við vegna þess að ríkið er að setja fjögur þúsund milljónir árlega inn í þetta nýja fyrirkomulag. Það væri mjög sérstakt ef það væri gert til þess að hægt væri að smyrja bæði ofan á lóðir og uppbyggingu húsnæðis. Við sjáum að það er hægt að gera þetta á hagkvæman hátt og við þurfum að sjá þær breytingar raungerast í íslensku samfélagi, þannig ég sé ekki fyrir mér að við gerum breytingar á þessu,“ segir hann.

Í minnisblaði Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem lagt var fram á fundi Velferðarnefndar Alþingis í gær, kemur fram að 545 nýjar íbúðir sem seldar voru á fyrstu átta mánuðum ársins hefðu uppfyllt skilyrðin, þar af 220 á höfuðborgarsvæðinu. Áætlanir um að veitt verði hlutdeildarlán fyrir 400-500 íbúðum á ári ættu því að ganga eftir samkvæmt stofnuninni.

„Ég er búinn að heyra af því undanfarið, og á meðan þessi lög hafa verið í smíðum, að fleiri verkefni séu að fara af stað hér á höfuðborgarsvæðinu og allt í kringum landið þannig ég hef ekki áhyggjur af því að markaðurinn svari ekki þessu kalli. Við erum að setja gríðarlegan hvata inn í þetta og ég vænti þess að við förum að sjá þetta raungerast mjög hratt á næstu misserum,“ segir Ásmundur.