Ragnar Freyr Ingvarsson, umsjónarlæknir COVID-göngudeildarinnar á Landspítalanum, segir að lítið megi bregða út af til þess að fjöldi kórónuveirusmita margfaldist. Hann líkir ástandinu núna við að þjóðin sitji á sprengitunnu. Hann efast um að sóttvarnaaðgerðir hafi neikvæð áhrif á andlega heilsu fólks.
Ragnar var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.
„Reynslan sýnir okkur að þessi sjúkdómur versnar á fimmta til sjöunda degi hjá ákveðnum hópi fólks. Og þá ætlum við að vera tilbúin að grípa þetta fólk. Spítalinn hefur verið að ganga í gegnum algera endurskipulagningu á liðinni viku og það er verið á fullu að breyta deildum til að anna eftirspurn eftir COVID-plássum,“ segir Ragnar.
Hann segist finna talsverðan mun á fyrstu bylgju faraldursins og þeirri þriðju, sem nú stendur yfir. „Það eru nokkrir þættir einna helst. Við skimum miklu meira en við gerðum áður, þannig að ég held að við séum að greina fleiri en ella. Fólkið er yngra, það er átta ára munur að meðaltali á þessari bylgju og það skiptir miklu máli vegna þess að yngra fólk verður að öllu jöfnu minna veikt. En eftir því sem faraldurinn breiðist út verður erfitt að stöðva að hann nái til eldri laga samfélagsins.“
Ragnar segist uggandi yfir þróun faraldursins í síðustu viku. „Þetta var óheftur veldisvöxtur í síðustu viku. Þegar kúrfan snýr upp á við er hún farin af stað á fleygiferð. Við erum með skynsamar sóttvarnir að mestu að ég tel og þannig náum við að bremsa þetta. Þetta hljómar allt svo lítið þegar við segjum það, 25 innlagnir; hvað er það á milli vina? Tveir til þrír á gjörgæsludeild. Þetta eru ekki stórar tölur en ef við gætum okkar ekki, þá verða þessar tölur alveg ofboðslega stórar. Ég held að besta myndlíkingin sé að við sitjum á sprengitunnu. Þetta er möguleikinn, að ofboðslega margir veikist á skömmum tíma, sem við ráðum ekki við. Um leið og við förum að missa faraldurinn upp í 3-4% af þjóðinni í einu erum við komin í stærð sem við ráðum ekkert við.“
Ragnar segir að ef þrjú prósent þjóðarinnar veikist séu það 10.800 manns. Það þýði að 350 þurfi innlögn. „Við eigum ekki til 350 tilbúin pláss. Hvað þá að við eigum til 90 gjörgæslupláss. Við þurfum að „acceptera“ það að hluti þessa fólks, kannski 30, muni láta lífið. Eftir því sem faraldurinn stækkar vex þetta í veldisvexti. Þá bara leggst allt kerfið á hliðina.“
Ragnar segist efast um að sóttvarnaaðgerðir hafi neikvæð áhrif á andlega heilsu þjóðarinnar. „Ég myndi frekar segja að þetta væri COVID-19 að kenna. Það er ekki sóttvarnaaðgerðum um að kenna að allt sé farið í bál og brand.“